- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Snyrtimennska er Grenvíkingum í blóð borin og raunar íbúum dreifbýlli hluta Grýtubakkahrepps ekki síður. Leitun er til dæmis að glæsilegra býli en Nesi í Höfðahverfi, þangað mættu sjónvarpsvélar að ósekju koma því ekki er hægt að segja að Nes sé í alfaraleið. Við fáum ósjaldan hrós frá gestum, fólk hefur á orði hve allt sé snyrtilegt hér á Grenivík, húsin falleg og götur hreinar. Hér býr líka vel klætt og myndarlegt fólk sem er bara vel keyrandi.
Öllum þykir hrósið gott, sjálfsmynd okkar eflist og hvetur okkur til dáða að gera enn betur. Íbúar þrýsta á sveitarfélagið ef þeim þykir í einhverju slegið slöku við og almenn samstaða er um að vilja búa í snyrtilegu umhverfi sem geti verið öðrum fyrirmynd. Við sláum því ekki af í metnaði, heldur sækjum fram til að gera enn betur þar sem tækifæri eru.
Að undanförnu hef ég fengið nokkra bakþanka, það er þegar ég horfi á annars ágæta sjónvarpsþætti, Ófærð. Ég er hugsi yfir þeirri mynd sem dregin er þar af dreifbýlinu og íbúum þess, trúlega er svo um fleiri. Er forsenda morðs á sveitabæ að hann sé í svo mikilli niðurníðslu að vart sé boðlegt? Er ekki nóg að vera með hár og skegg, þarf það helst að vera úfið og óhreint líka og fólk gjarna heimóttarlegt og kannski úrkynjað? Eða er ég að oftúlka og kannski allt of viðkvæmur fyrir listrænni tjáningu, eins og hver annar blýantsnagari í Seðlabanka Íslands?
Þetta leiðir hugann að ímynd dreifbýlis í sjónvarpi og bíómyndum í gegnum tíðina. Óðal feðranna var umdeilt og síðan verða menn eins og Gísli á Uppsölum að táknmyndum. Smám saman byggist upp einhver mynd sem má svo deila um hve rétt eða sanngjörn er, hver ný sería byggir undir og bætir við.
Kannski er ekki einfalt að meta hvenær listin speglar raunveruleikann, eða hvenær raunveruleikinn í huga þjóðarinnar er mótaður og búinn til af listinni. Kannski er bara engin furða að fólk sem kemur til Grenivíkur verði hissa á að finna allt annan veruleika en þessa grónu ímynd sorglegs ömurleika og ljótleika bygginga og mannlífs sem skjárinn hefur fært því.
Meira að segja nær þessi innræting, ef kalla má svo, alla leið inn í sjónvarpsfréttir. Ekki fyrir alls löngu voru myndir frá Bakkafirði í fréttum, þar gat að líta gömlu úr sér gengnu bryggjuna, en ekki þá nýrri sem er í notkun. Einnig íbúðarhús í algerri niðurníðslu, ætla ég þó að eitthvað annað og betra megi finna. Er þetta kannski meðvituð fréttastefna af landsbyggðinni?
Opinber umræða þrengir víða að byggð og atvinnu út um landið. Vonandi tekst nú loksins að leggja veg til Vestfirðinga eftir áratuga þras um Teigsskóg, sem mörgum sem þekkja alvöru skóga hefur þó reynst erfitt að finna. Barist er hart gegn virkjunum og raunar flestum framkvæmdum sem eitthvað kveður að úti á landi. Við erum ekki svo stór þjóð að það má telja mikið mein að við getum ekki lifað samhent í þessu landi, í sæmilegri sátt um helstu málefni. Hluti af vandanum kann að vera hve ólík ímynd eftir landshlutum hefur verið að byggjast upp lengi.
Þessum hugleiðingum er ekki beint gegn Ófærð, sem ég hef gaman af að fylgja eftir, þó tilefnið hafi komið þaðan. Hins vegar finnst mér ófært ef listin býr raunverulega til svona ímynd landsbyggðar í hugum mikils hluta þjóðarinnar. Kannski er við hæfi að enda pistilinn á ímynd bænda. Ætli þeir sögufrægu bræður Magnús og Eyjófur hafi ekki verið ansi drjúgir við að búa til ímynd íslenskra bænda og dreifbýlis í sjónvarpi. Það er því veruleg kaldhæðni að þeir bræður hafa alla tíð búið í hjarta Reykjavíkur, í Laugardal!
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri