Sameining, ótti og fjárhagsleg heilsa

Akureyri hefur nú leitað hófanna um að kanna hagkvæmni sameiningar sveitarfélaga við Eyjafjörð og er sú umleitan til umfjöllunar hjá hinum sveitarfélögunum við fjörðinn.  Líklega eru undirtektir nokkuð misjafnar.

Á föstudaginn var málstofa í Háskólanum á Akureyri þar sem Stefán Gunnlaugsson dósent, kynnti niðurstöður rannsókna sinna á fjárhagslegri heilsu sveitarfélaga á Íslandi síðustu 15 árin eða svo.  Við rannsóknir sínar notaði Stefán eingöngu tölur úr ársreikningum sveitarfélaga og beitti á þær viðurkenndum reiknilíkönum þannig að mat hans er svo hlutlægt sem verða má.  Niðurstöðurnar voru nokkuð merkilegar í ljósi sameiningarumræðunnar, þó þær kæmu mönnum mismikið á óvart.  Fjárhagsleg heilsa lítilla sveitarfélaga á þessa tölulegu mælikvarða er nefnilega miklum mun betri en hinna stærri og við Eyjafjörð standa hin smæstu best en Akureyri verst.  Rétt er þó að taka fram að meðal hinna stærri sveitarfélaga í landinu stendur Akureyri vel að vígi.

Stefán tók fram að hin stærri sveitarfélög veittu náttúrulega miklu betri þjónustu.  Sú ályktun, sem má líklega kalla almennt viðhorf, byggðist hins vegar ekki á neinum gögnum eins og rannsókn hans á fjárhag sveitarfélaga gerði.  Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þetta viðhorf, að hin stærri sveitarfélög veiti almennt mikið betri eða meiri þjónustu en hin smærri, sé ekki allskostar rétt.  Í stórum málaflokkum þjónustu taka hin smærri beinan þátt með framlagi í takt við íbúafjölda og með hluta af staðgreiðslu, t.d. málefnum fatlaðra.  Sum þeirra veita minni þjónustu t.d. í öldrunarmálum, en önnur jafngóða eða betri.  Oft veita þau meiri og betri þjónustu, t.d. við snjómokstur og leikskóla, svo eitthvað sé nefnt.

Hitt er rétt, að á stærri stöðum er að finna mikið meiri og fjölbreyttari þjónustu.  Hins vegar er sú umframþjónusta frekar á hendi ríkisins, einkaaðila og félagasamtaka, þó sveitarfélögin komi stundum að málum líka.  Má t.d. nefna framhaldsskóla, háskóla, löggæslu og heilbrigðisþjónustu af hendi ríkis, verslanir, veitingahús og margskonar aðra þjónustu af hendi einkaaðila, íþróttafélög og menningarstarf sem sækir fjármagn í allar áttir, m.a. bæði til ríkis og sveitarfélaga.  Þessi fjölbreytta þjónusta dregur til sín fólk og gerir það að verkum að smærri samfélög eiga oft undir högg að sækja þegar kemur að íbúaþróun.  Ekki verður séð að sameining sveitarfélaga hafi mikil áhrif á þessa þróun, getur jafnvel verkað öfugt, nema það sé beinlínis markmiðið að draga fólk saman á færri staði.

Samskipti ríkis og sveitarfélaga er svo annað mál, þar hafa sveitarfélög gjarna farið halloka seinni árin og skort á að fjármagn fylgdi verkefnum við flutning frá ríki til sveitarfélaga.  Einnig hafa stór verkefni verið vanfjármögnuð af hendi ríkisins eins og öldrunarþjónusta.  Hafa sum sveitarfélög borið mikinn halla af rekstri hjúkrunarheimila síðustu árin, m.a. hefur Akureyri borið þar þungan bagga.  En það gera fleiri og t.d. var halli af hjúkrunarheimili okkar í Grýtubakkahreppi nær tvöfalt meiri pr. íbúa en var á Akureyri 2015.  Þar horfir þó til betri vegar á síðasta ári og þessu, sem betur fer.

Félagsþjónusta er sá þáttur sem stóru sveitarfélögin kveinka sér hvað mest undan, og gjarna talað um að til þeirra flytji fólk af minni stöðum, sem stendur höllum fæti.  Eitthvað kann að vera til í þessu, en ansi held ég að hátt hlutfall Grenvíkinga þurfi að leggjast upp á Akureyri til að mynda þá slagsíðu á fjárhag að um muni.  Félagsþjónustu er hins vegar einnig sinnt af minni sveitarfélögum, sumpart gerir nándin þjónustuna markvissari og betri, en getur einnig gert hana erfiðari og viðkvæmari.  Einnig má ætla að minni hætta sé á misnotkun þjónustu eða ofþjónustu en í stærra samfélagi.

Þá er nefnt til sögu að smærri sveitarfélögum sé haldið gangandi af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  Eðli máls samkvæmt fá minni sveitarfélög almennt hærri greiðslur í hlutfalli við íbúatölu, en þó er það svo að Jöfnunarsjóður er farvegur fyrir fjármögnun verkefna en ekki bara miðlun frá stærri til smærri.  Benda má t.d. á að Fljótsdalshérað, Skagafjörður og Norðurþing sem eru nokkuð stór sveitarfélög mynduð eftir sameiningar, fá óverulega minna pr. íbúa úr Jöfnunarsjóði en þrjú minnstu sveitarfélögin við Eyjafjörð.  Fjárhagslega standa þessi þrjú stóru þó afar höllum fæti, þrátt fyrir sameiningar, meðan hin þrjú smáu eru við afbragðs góða heilsu fjárhagslega.

Það mætti því verða næsta rannsóknarverkefni Stefáns að finna út hví hin stóru standa svo mikið veikar fjárhagslega en hin minni.  Hvaða þættir vega þyngra í öfuga átt við hagkvæmni stærðarinnar.  Í tilviki Akureyrar má t.d. nefna að bæjarstjórnir á ýmsum tímum hafa ákveðið að selja hluti í fyrirtækjum í eigu bæjarins þegar tækifæri hefur gefist.  Það hefur enda verið lengi almennur áróður fyrir því, ekki síður en sameiningu sveitarfélaga, að opinberir aðilar eigi ekki að vasast í rekstri sem einkaaðilar geti sinnt.  Var það til góðs fyrir fjárhag bæjarins til lengri tíma að selja þessar eignir, varð söluandvirðið í hverju tilviki bænum drýgra en eignin hefði orðið áfram?  Enn á Akureyri eina alvöru eign, Norðurorku, sem hefur haldið rekstri bæjarins réttu megin undanfarin ár.  Sjálfsagt eru margir tilbúnir að kaupa þetta góða fyrirtæki og ef sú umræða kemur upp mun reyna á framsýni og þrek bæjarfulltrúa.

Sigrún Björk Jakobsdóttir fyrrv. bæjarstjóri birtir svo í gær grein á vikudagur.is sem er ætlað að hvetja til sameiningar sveitarfélaga.  Hún segir frá sameiningarkosningum 2005 og telur að þá hafi ótti verið meginástæða andstöðu við sameiningu.  Ótti íbúa minni sveitarfélaga við Akureyri, ótti við breytingar, ótti við framtíðina, ótti við minni þjónustu ofl. ofl.  Þá kemur fram hjá henni að 99% íbúa Grýtubakkahrepps kaus gegn sameiningu.  Mætti því ætla að hér búi almennt óttaslegnir og þröngsýnir íbúar sem kunna ekki fótum sínum forráð, né átta sig á því hvað þeim er fyrir bestu.

Á þeim tveimur og hálfa ári síðan ég fluttist til Grenivíkur hef ég í engu fundið þessu stað.  Ég hef ekki séð þessa óttaslegnu íbúa.  Hitt er nær sanni að hér búi fólk með sjálfstraust og stolt.  Fólk sem óttast ekki að standa á eigin fótum, óttast ekki framtíðina og hvað þá að það óttist Akureyri.  Það óttast heldur ekki þá ábyrgð sem er fólgin í því að ráða sínum málum, að bera ábyrgð á rekstri og velferð samfélagsins til framtíðar.  Sveitarfélagið á í ágætu samstarfi við önnur sveitarfélög hér á svæðinu og stendur upprétt og óttalaust í þeim samskiptum.

Talað er um að sameinuð séum við sterk, með eina sameinaða rödd.  Hvert sveitarfélag hefur hins vegar sína rödd, sinn aðgang að stjórnkerfi, þingmönnum og ráðherrum landsins.  Undanfarið hefur hvert sveitarfélagið af öðru ályktað um Reykjavíkurflugvöll og lokun neyðarbrautarinnar svokölluðu.  Þessar raddir hljóma saman og mynda sterkari kór en ein rödd.  Blandaður kór getur nefnilega myndað mikinn og þéttan hljóm ef vel er á málum haldið, þó einsöngur hljómi vel líka þegar það á við.

Þegar talað er um lýðræðishalla og íbúalýðræði má ekki gleyma því að hvergi er valdið nær íbúunum en í litlu sveitarfélagi.  Lýðræðið nær í raun hæstum hæðum þar sem menn eru kjörnir í sveitarstjórn af verðleikum sínum einum, án pólitískra flokkadrátta og vinna að því af heilindum að bæta sitt samfélag og tryggja hag þess til framtíðar.  Metnaður stendur frekar til þess að láta gott af sér leiða en að gæta að vinsældum fyrir næstu kosningar.  Hvernig getur það verið slæmur grunnur að byggja eitt samfélag á?

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps.