- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Rekstur Grýtubakkahrepps gekk allbærilega á síðasta ári eins og farið var yfir á íbúafundi nýverið. Útgjöld stóðust almennt áætlun og tekjur í heild einnig, afkoma var heldur yfir væntingum, eða 21,4 milljkr. í plús og ágæt fjármunamyndun í rekstrinum. Sveitarfélagið hefur því áfram góða burði til að byggja upp og viðhalda góðri þjónustu við íbúana. Ársreikninginn í heild er að finna á heimasíðunni.
En það eru blikur á lofti. Þó tekjur stæðust vel í heild, voru skatttekjur nokkuð undir áætlun. Aðrar tekjur voru hins vegar vel umfram áætlun á móti. Það er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af þróun skatttekna og huga að hvað veldur. Íbúafjöldi stendur í stað og aldurssamsetning er að breytast þannig að fólki á besta aldri til vinnu fækkar heldur. Við búum við húsnæðisskort og því ekki hægt um vik fyrir fólk að flytja til okkar, þó atvinna sé í boði. Þá hefur krónan styrkst mikið á undanförnum misserum, það lækkar laun sjómanna og vigtar þungt í okkar tekjur. Verkfall sjómanna hefur líka haft áhrif til hins verra, og þá hefur aukið framboð á mörkuðum í kjölfarið lækkað fiskverð og þar með enn lækkað tekjur.
Við verðum að vona að þegar lengra líður færist þetta eitthvað til betri vegar en ástæða er til að velta fyrir sér stefnu stjórnvalda eða stefnuleysi. Hvernig er hagstjórn landsins ígrunduð og hverjir ráða ferð? Mikil styrking krónunnar á sama tíma og laun hafa hækkað hressilega hér innanlands, getur ekki endað nema með nokkrum skelli, í versta falli verulegum og þá með gjaldþrotum og atvinnuleysi. Útflutningsgreinar hafa einhver þolmörk, við eru farin að nálgast þau hættulega mikið um þessar mundir.
Ríkisstjórn og seðlabanki telja það sitt heilaga hlutverk að berjast gegn þenslu. Það er fólgin í því ákveðin þversögn því stjórnvöld vilja jafnan á sama tíma stuðla að uppbyggingu og mikilli atvinnu. Þensla sem byggist á ósjálfbærum lántökum, reiknuðum hækkunum verðbréfa og viðskiptahalla er ekki góð. Það þekkjum við frá biturri reynslu. En er þensla sem byggir á auknum straumi ferðamanna og góðu gengi í sjávarútvegi þess eðlis að stjórnvöld verði að vinna að því hörðum höndum að berja hana niður?
Háir stýrivextir seðlabankans eru ætlaðir til þess að vinna gegn fjárfestingu og styrkja gengi krónunnar. Þessa stefnu keyra stjórnvöld með galopin augun. Virknin er þannig að þegar nógu langt er gengið, brestur rekstrargrundvöllur fyrirtækja. Ferðamenn snúa frá, fyrirtæki flytja úr landi eða leggja upp laupana og sá samdráttur næst sem sóst var eftir. Er þetta sú framtíð sem íslensk stjórnvöld vilja með öllum tiltækum ráðum vinna að?
Svo er því miður að sjá. Engin stefnubreyting í vaxtamálum, tryggingargjaldi er haldið háu þrátt fyrir minna en ekkert atvinnuleysi, stefnt að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, gistináttagjald hækkað o.sfrv. Það er einnig ótrúlegt að allt frá 2008 höfum við á engum tíma haft gagnsæja stefnu í gjaldmiðilsmálum. Engin stefna um stöðu krónunnar gagnvart öðrum myntum, og því er atvinnulífi gert nánast ómögulegt að gera raunhæfar áætlanir til nokkurs tíma.
Hagvöxtur sem er tilkominn með nýtingu auðlinda okkar, sjávarfangs, orku og landgæða sem laða hingað ferðamenn er ekki hættulegur þjóðarhag. Þvert á móti er hann til þess fallinn að bæta almenn lífskjör í landinu og færa þjóðfélagið fram um enn eitt skref. Hann ber að nýta til uppbyggingar innviða s.s. vega, heilbrigðisþjónustu og aðstöðu fyrir ferðamenn sem setið hefur á hakanum. Hlúa ber að þessum greinum en ekki vinna að því að keyra þær niður.
Þegar kornið vex vel og bylgjast fagurlega er rétt að uppskera, það er lítil búmenska að telja réttara að bera eld að akrinum svo gróðinn verði ekki of mikill!
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri