- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Grýtubakkahreppur er við austanverðan Eyjafjörð. Í sveitarfélaginu búa rúmlega 400 íbúar, rúmlega 300 í kauptúninu og restin í blómlegri sveit suður af Grenivík. Þengill mjögsiglandi nam land frá Fnjóská til Grenivíkur og bjó í Höfða en Þormóður Þorleifsson nam Grenivík og Hvallátur og strönd alla út til Þorgeirsfjarðar. Í eigu ríkisins komst jörðin Grenivík 1891 þegar henni var makaskipt fyrir kirkjujörðina Höfða. Ríkisjörð var hún til 1973 er Grýtubakkahreppur keypti hana. Kirkja var byggð 1885-1886 og var fyrst þjónað af Höfðapresti en 1892 varð Grenivík prestssetur þegar sr. Árni Jóhannesson settist að á Grenivík. Sat hann staðinn til dauðadags. Árið 1927 var Grenivíkurprestakall sameinað Laufásprestakalli.
Læknar höfðu setið á Kljáströnd og Grenivík allt frá 1894, Lænknishéraðið hét fyrst 8. aukalæknishérað en árið 1900 var nafninu breytt í Höfðahverfislæknishérað. Árið 1928 var prestssetrið Grenivík gert að læknisbústað. Þar sat fyrstur Jóhann J. Kristjánsson til 1937 en þá tók Árni Björn Árnason við og sat til 1977. Nú er rekin heilsugæslustöð í Túngötu 2 á Grenivík sem Akureyrarlæknar þjóna.
Þorp tók að myndast á Grenivík upp úr aldamótum 1900. Árið 1946 var Útgerðarfélagið Gjögur stofnað. Árið 1964 var tekið til við að byggja höfn á Grenivík og í framhaldi af því var hlutafélagið Kaldbakur hf. stofnað sem rak frystihús á Grenivík og var langstærsti atvinnurekandinn í sveitarfélaginu. Nú rekur Gjögur hf. frystihúsið. Í dag er rekin myndarleg útgerð frá Grenivík á vegum Frosta hf. og Gjögurs hf. sem áður er nefnt. Einnig er stunduð töluverð smábátaútgerð.
Ýmis önnur fyrirtæki eru á Grenivík, má þar nefna Sparisjóð Höfðhverfinga, harðfiskverkunina Darra og lyfjafyrirtækið Pharmarctica. Í dreifbýlinu er stundaður hefðbundinn landbúnaður og kartöflurækt á sér langa og ríka hefð.
Prestssetrið Laufás er fornfrægt höfuðból. Gamli bærinn í Laufási er byggður í tíð sr. Björns Halldórssonar 1866-1870. Bærinn hefur verið gerður upp og haldið við af Þjóðminjasafninu. Rekstur gamla bæjarins er í höndum Minjasafnsins á Akureyri. Skammt fyrir sunnan torfbæinn er kirkja, stílhrein og fögur, byggð að fyrirsögn Tryggva Gunnarssonar 1865.
Á Grenivík stendur Grenivíkurkirkja, afar falleg kirkja byggð á árunum 1885-1886. Árið 2005 var nýtt safnaðarheimili byggt steinsnar sunnan við kirkjuna.
Grunnskólinn var lengi vel í gamla skólahúsinu sem reist var 1925, en 1980 flutti hann í nýja byggingu. Árið 1990 var byggð sundlaug við skólann, 1994 íþróttahús og 2005 íþróttamiðstöð; m/líkamsræktarstöð, afgreiðslu og nýjum búningsklefum. Tónlistarkennsla er í grunnskólanum frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar.
Árið 1998 var byggt nýtt dvalarheimili fyrir aldraða sem nefnist Grenilundur. Þar búa 10 manns í 3 dvalarrýmum og 7 hjúkrunarrýmum.
Flutt var í nýjan leikskóla, Krummafót, árið 2000 eftir 17 ára viðveru í bráðabirgðahúsnæði, Krakkabúð.
Ýmis félög starfa í Grýtubakkahreppi, t.a.m. Kvenfélagið Hlín síðan 1920, Íþróttafélagið Magni sem var stofnað 1915, Hestamannafélagið Þráinn stofnað 1973, Björgunarsveitin Ægir og kór Grenivíkurkirkju.
Kauptúnið Grenivík stendur undir fjallinu Kaldbak sem er 1173 m hár. Skemmtilegar gönguleiðir eru upp á Kaldbak, en fyrir þá sem kjósa léttari leiðir er Þengilhöfði ákjósanlegri. Þengilhöfði er 260 m hátt fjall suður af Grenivík. Fleiri fjöll í byggðarlaginu er ögrandi að klífa svo sem Blámannshatt og Laufáshnjúk. Rétt er að benda áhugasömum göngugörpum á bókina "Fjöllin í Grýtubakkahreppi" eftir Hermann Gunnar Jónsson, sem kom út 2016.
Þegar minnst er á Grenivík eða Grýtubakkahrepp koma Fjörðurnar og Látraströnd fljótt upp í hugann. Á Látraströnd og í Fjörðum var byggð áður fyrr og fóru síðustu jarðirnar í Fjörðum í eyði árið 1944 og nú er aðeins einn bær í byggð á Látraströnd. Þessar gömlu byggðir eru paradís göngumannsins og sífellt fleiri leggja leið sína á þetta svæði til að kynnast fjölbreyttri og fallegri náttúru og sögu forfeðra okkar sem bíður við hvert fótmál.
Matvöruverslunin Jónsabúð er í Grýtu að Túngötu 3 á Grenivík. Þar er líka kaffi- og veitingahúsið Kontorinn. Við grunnskólann er góð sundlaug með fallegu útsýni yfir Eyjafjörð og tjaldstæði. Á tjaldstæðinu er nýlegt og gott aðstöðuhús með snyrtingum og sturtum og einnig hefur verið sett upp öflugt þráðlaust net fyrir gesti. Í Ártúni er bændagisting og tjaldstæði, á Lómatjörn er gisting, einnig á Grýtubakka og á Grenivík eru gistiheimilið Grenivik Guesthouse og Gistiheimilið Vellir.
Þeir sem hafa tíma til að staldra við utan hringvegarins ættu að taka lykkju á leið sína og heimsækja byggðarlagið og njóta náttúrufegurðar og persónulegrar gestrisni heimamanna.
Verið velkomin.