- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Þann 2. ágúst sl. var skrifað undir viljayfirlýsingu milli Gjögurs hf, Sæness ehf. og Grýtubakkahrepps um að þessir aðilar vinni sameiginlega að stofnun fiskvinnslu á Grenivík með það að markmiði að vinnsla hefjist eigi síðar en um áramótin 2009-2010. Samningur um fiskvinnslu verður undirritaður svo fljótt sem auðið er. Þótt hér sé aðeins um viljayfirlýsingu að ræða er þetta stórt skref í rétta átt til þess að fiskvinnsla geti hafist aftur innan tíðar á Grenivík.
Framkvæmdir á vegum Grýtubakkahrepps hafa gengið þokkalega í sumar. Jarðvegsskiptum í Höfðagötu er að ljúka og bygging parhúss að Lækjarvöllum 1 er frekar á undan áætlun. Enn á eftir að snurfusa Gamla skóla að utan en það verður vonandi gert í ágúst.
Útgerðarminjasafnið á Grenivík var opnað 16. júní sl. Reitingur af fólki hefur heimsótt safnið. Það er vel þess virði að líta inn og skoða það sem safnið hefur upp á að bjóða. Síðast en ekki síst er myndasýningin mjög áhugaverð en þar eru gamlar myndir sýndar sem tengjast útgerðarsögu Grýtubakkahrepps. Safnið verður opið á milli kl. 13:00 og 17:00 alla daga til 15. ágúst nk.
Töluverð umræða hefur verið undanfarið um gömlu brúna yfir Illagil. Nauðsynlegt var að fá nýja brú þar sem sú gamla var orðin viðsjárverð og ber að þakka Vegagerðinni fyrir skiptin. Að vísu hefðu heimamenn mátt frétta af framkvæmdinni fyrr þar sem búið var að selja veiðileyfi í Fjarðarána á þessum tíma auk þess sem gönguferðir voru skipulagðar. Við vonum að búið sé að bjarga gömlu brúnni frá eyðileggingu en hún á sögulegt gildi hér í sveit þar sem hún var rúm 30 ár á Fnjóská á móti Pálsgerði.
Grenivík í ágúst 2009, Guðný Sverrisdóttir.