- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Það sem heillar mest við að sinna stjórnmálum og stjórnsýslu er líklega vinnan við að bæta það samfélag sem við lifum í. Að geta haft áhrif á þróun samfélagsins með daglegum störfum og leita sífellt leiða til að gera það einfaldara, skilvirkara, já betra í dag en í gær.
Þetta er þó flókið verkefni, sérstaklega reynist oft erfitt að gera hlutina einfaldari. Það eru ákveðin forréttindi að lifa í smáu samfélagi eins og okkar og auðveldara að þoka hlutum áfram en þar sem einingar eru stærri og þyngri í vöfum.
Um margt búum við hér við mikil lífsgæði og hátt þjónustustig. Sumt verður ekki metið á hefðbundna mælikvarða, t.d. að hafa Kaldbak fyrir augunum á hverjum degi eða njóta sólarlags við lognkyrran fjörðinn. Samheldni og nálægð eru heldur ekki mælanleg gæði en þó mikils virði, ekki síst þegar eitthvað bjátar á.
Hlutverk okkar sem vinnum fyrir samfélagið er mikið, en sumt er líka alfarið undir íbúum sjálfum komið. Verslun og þjónusta á litlum stað á allt undir því að íbúar noti sér hana að jafnaði. Okkur þykir afar gott að geta gripið til þjónustu þegar okkur hentar, en megum ekki gleyma því að hún er ekki endilega sjálfsögð réttindi okkar.
Bæjarbragur veltur einnig á okkar eigin umtali um náungann, okkar breytni og framkomu hvert við annað. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Það er undir okkur sjálfum komið hvort þessi þáttur okkar samfélags telst styrkur, eða veikleiki.
Á umliðnum dögum höfum við horft á umbrot í stjórn landsins. Við höfum fylgst agndofa með togstreytu og hatrammri baráttu um völd þar sem við sjáum ekki alltaf vel undir yfirborðið. En við skynjum einhvern veginn að gamlir þræðir valds og hefða liggi djúpt og ýmsir megi ekki til þess hugsa að þeir þræðir bresti.
Þáttur fjölmiðla er virkur í þessum umbrotum, fyrir áhorfendur er stundum ekki einfalt að greina á milli hlutlausra frétta og þess sem kalla má áróður. Það er hins vegar varasamt að afgreiða alla gagnrýni sem pólistískan áróður. Það fríar menn ábyrgð á að bregðast við málefnalegri gagnrýni og leiðir jafnan til falls. Ég hef t.d. stundum sagt að það sem felldi SÍS á sínum tíma hafi verið sá háttur stjórnenda að afgreiða alla gagnrýni á samvinnuhreyfinguna sem pólitískan áróður. Því þó Mogginn væri harður pólitískur andstæðingur í áratugi, er hætt við að málefnaleg og réttmæt gagnrýni hafi stundum flotið með án þess að við væri brugðist.
Það er mér sérstakt ánægjuefni að ég tel mig svo heppinn að starfa fyrir sveitarstjórn sem er lýðræðislega kjörin svo sem best verður á kosið og sem hefur það eitt að leiðarljósi að vinna samfélaginu eins vel og hún hefur vit til. Vonandi berum við gæfu til að viðhalda þessari stöðu, þá mun okkur saman takast að þoka málum jafnan fleiri skref áfram en afturábak.
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri