- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Þar eru ýmis ágæt markmið sett til framtíðar. Mikið er lagt upp úr lýðræði, virðingu, sjálfbærni og sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga sem er vel.
Meginmarkmið eru; „Að sveitarfélög verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi“ og „sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.“ Í tillögunni, sem og greinargerð sem með fylgir, er mikið lagt upp úr þessum atriðum , lýðræði og sjálfstjórnarrétti.
Aðgerðaáætlun fylgir með í 11 liðum. Þar er flest í formi mis ljósra markmiða, sumt margrædd málefni svo sem verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, tekjustofnar sveitarfélaga og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni, án þess þó að um neinar haldbærar tillögur sé að ræða.
Eina atriðið sem er skýrt og skorinort er þó í hróplegri andstöðu við lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt, sem er þó svo mjög hampað að öðru leyti. Að lögfest verði að sveitarfélög skuli hafa að lágmarki 1000 íbúa innan nokkurra ára, og fái íbúar ekkert um það að segja, nema þá náðarsamlegast að velja sér mótaðila til sameiningar.
Í dag eru 39 sveitarfélög sem ná ekki þessu marki, af 72 sveitarfélögum í landinu. Það á því að taka lýðræðislegan rétt íbúa meirihluta sveitarfélaganna af þeim með lagaboði, allt í nafni lýðræðis.
Fyrir svo harkalegri aðgerð þurfa að vera ríkir hagsmunir og sterk rök. Því er ekki að heilsa í þessu máli, enda alger fásinna að sameining sveitarfélaga, þar sem aðeins 5% þjóðarinnar búa, í eitthvað stærri einingar, hafi nokkur áhrif á styrk sveitarfélaga landsins í heild. Raunar finnast hvergi í gögnum eða ferli málsins nokkur rök fyrir þessu lágmarki.
Hins vegar er mörgu snúið alveg á haus, t.d. að samstarf sveitarfélaga sé ólýðræðislegt þar sem íbúar færist fjær ákvarðanatöku og ábyrgð, því þurfi sveitarfélög að vera svo stór að þau ráði við að sinna þjónustu ein og óstudd. Af þessum sökum þurfi að sameina lítil sveitarfélög. Hvergi er hins vegar nefnt hvaða þjónustu er átt við, eða hvaða þjónustu íbúar litlu sveitarfélaganna séu ekki að fá. Enda er staðreyndin sú að íbúar minni sveitarfélaga eru almennt sáttir og fá ágæta þjónustu.
Þá kemur fram í þeim skýrslum sem að baki liggja, að lýðræðisleg virkni íbúa og samskipti við kjörna fulltrúa og skrifstofur sveitarfélaga, er mikið meiri í litlu sveitarfélögunum. Stækkun eflir því ekki lýðræði heldur öfugt. Því fylgir með að taka upp hliðarlýðræði með ýmsum aðferðum, hverfisráðum, íbúakosningum o.fl. til að vega á móti.
Samstarf sveitarfélaga um verkefni og rekstur þjónustu við íbúana er hagkvæm og skynsamleg leið sem þau hafa kosið að fara og hefur ekkert með stærð þeirra að gera, né heldur lýðræði. Ef samstarf sveitarfélaga veldur lýðræðisbresti, hlytu menn þá ekki að byrja þar sem hann er mestur, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu? Þar eru sveitarfélög nefnilega í miklu samstarfi, ekki síður en hin litlu á landsbyggðinni. Má nefna Sorpu, Orkuveitu Reykjavíkur, Strætó, Faxaflóahafnir og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins svo eitthvað sé nefnt.
Hins vegar reka t.d. Grýtubakkahreppur og Langanesbyggð sín eigin sjálfstæðu slökkvilið, svo er um fleiri lítil sveitarfélög. Á mörgum sviðum hafa þau líka með sér samstarf, eins og þau stóru. Þannig reka sveitarfélögin stór og smá, þjónustu við íbúana með ýmsum hætti eftir því sem hentar á hverju svæði. 1000 íbúa markið breytir litlu í þessu sambandi og er fullkomin markleysa að nota samstarf sveitarfélaga sem rök fyrir því lágmarki.
Alvarlegast er samt að á öllum stigum hefur samráð við litlu sveitarfélögin verið takmarkað og það sem enn verra er, rangt farið með þegar frá því er sagt. Því er óhikað haldið fram að tillagan sé lögð fram með velþóknun sveitarstjórnarstigsins í heild, jafnvel talað um ákall þess. Þá segir um samráð og umsagnir t.d. um Grænbók, að umsagnir séu mjög jákvæðar og sveitarstjórnarstigið sé almennt sammála þessum tillögum. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er þetta svo ítrekað. Hins vegar er í engu getið um harða andstöðu gegn lögþvinguðum sameiningum, né efasemdum um þá leið, sem þó eru áberandi í umsögnum sveitarfélaganna.
Þetta eru algerlega óboðleg vinnubrögð í svo mikilvægu máli og þeim til vansa sem ábyrgð bera. Það á að beita íbúa okkar órétti á mjög vafasömum og jafnvel fölskum forsendum. Nái það fram að ganga verða síðan til ný jaðarsvæði og þar er mikil hætta á að þjónusta muni versna öfugt við það sem að er stefnt. Sem aftur leiðir til fólksflótta og fleiri brothættra byggða.
Íbúum er fullvel treystandi fyrir því að meta sjálfir hvað þeim er fyrir bestu. Alþingi getur ekki og má ekki leggja blessun sína yfir ofbeldi, þó reynt sé að kenna það við lýðræði.
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri