- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Þá er sumri farið að halla og hefur það á margan hátt verið gjöfult og gott þrátt fyrir efnahagsþrengingar. Hér áður fyrr var talað um sjö góðæri og sjö hallæri en það hefur ekki verið háttur okkar Íslendinga að safna til mögru áranna og munum við trúlega seint læra það.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hinum ýmsu félögum í sveitarfélaginu nú í sumar og væri það mikill missir ef þau leggðu upp laupana. Því er mikils um vert að styðja við bakið á þeim eins og kostur er. Magni hefur starfað með miklum blóma í sumar. Meistaraflokkurinn er ofarlega í 2. deild og yngri flokkastarfið hefur verið öflugt, þökk sé nýjum þjálfara. Magnafólk setti skemmtilegan svip á Króksmótið um síðustu helgi en þar voru samankomnir um 90 Magnamenn bæði börn og fullorðnir. Golfsvæðið okkar að Hvammi tekur sífellt framförum og er nú kominn 9 holu völlur og smám saman batnar þar öll aðstaða. Ferðafélagið Fjörðungur hefur aldeilis látið hendur standa fram úr ermum. Skýlið á Þönglabakka hefur verið tekið í nefið og er nú algjörlega nýtt að innan og nýja húsið á Látrum líkist höll. Hestamannafélagið Þráinn er svo gott sem búið með reiðskemmuna og hélt veglegt reiðnámskeið fyrr í sumar. Önnur félög hafa verið að sýsla hvert með sínu móti. Hver hefur svo haldið því fram að fólk sé hætt að nenna að starfa í félögum?
Malbiksframkvæmdirnar hafa dregist á langinn en vonast er til að þær klárist fyrir helgina. Fólk er orðið langþreytt og skal engan undra en það sem skiptir mestu er að ekki er hægt að sjá annað en að allur frágangur sé til fyrirmyndar og til lengri tíma litið er það það sem skiptir máli.
Nú standa Miðgarðamenn í ströngu við að undirbúa Grenivíkurgleðina. Dagskráin verður glæsileg og metnaðarfull að vanda og hefst hún á föstudegi og stendur fram á aðfaranótt sunnudags. Dagskránni hefur verið dreift í hvert hús í sveitarfélaginu, hana má einnig sjá hér á síðunni undir viðburðir. Nú er bara að leggjast á bæn og biðja um gott veður um helgina. Grenivíkurgleðin er eitt af því sem gerir sveitarfélagið að samfélagi. Þökk sé Miðgarðamönnum fyrir framtakið.
Í vor voru íbúar Grýtubakkahrepps hvattir til að taka sig á í sorpmálum. Tuttugu og sex endurvinnslutunnum var úthlutað í sveitarfélaginu í júní sl. Þetta er tilraunaverkefni sem stendur fram í september en þá verður tekin ákvörðun um framhaldið. Gras af lóðum er losað sunnan malarvallar og brögð eru að því að ruslapokar með grasi eru ekki losaðir. Svona gerum við ekki því við vitum öll að pokarnir rotna ekki.. Nú lögum við þetta.
Góða skemmtun á Grenivíkurgleðinni.
Grenivík í ágúst 2008, Guðný Sverrisdóttir