Þá hallar sumri eftir einmuna veðurblíðu í sumar. Ef á að kvarta yfir einhverju þá er það helst að sérstaklega þurrt hefur verið á öllu landinu og er Grýtubakkahreppur engin undantekning á því. Þrátt fyrir það hefur heyfengur verið þokkalegur þótt lítið verði úr heyfeng í seinni slætti. Aflabrögð hafa verið þokkaleg og lífið gengur nokkuð sinn vanagang.
Hafin er viðbygging við leikskólann Krummafót og vonumst við til að þeim verði að mestu lokið um áramót. Viðbyggingin er svo sem ekki stór en kemur til með að leysa úr brýnustu vandræðum á leikskólanum en þar hefur börnum frekar verið að fjölga.
Grunnskólinn var settur síðastliðin föstudag. Þar koma til með að vera um 60 börn við nám í vetur. Búið er að ráða í flestar stöður og ekki var annað að sjá en börnin biðu full eftirvæntingar með að hefja nám í haust.
Velgengni Magna í fótbolta hefur verið afar góð í sumar eru þeir efstir í sínum riðli og hafa ekki tapað leik, unnið 10 leiki og gert 4 jafntefli. Nú er komið að átta liða úrslitum og óskum við þeim góðs gengis í þeim.
Ráðin hefur verið nýr sparisjóðsstjóri við Sparisjóð Höfðhverfinga. Hann heitir Jón Ingvi Árnason og á rætur sínar að rekja til Akureyrar. Það skiptir okkur miklu máli að sparisjóðurinn okkar nái að dafna og vonumst við til að svo megi verða.
Rekstur Pharmarctica hefur gengið vel á árinu og væntum við þess að þeirri þrautargöngu sem staðið hefur í tíu ár sé nú lokið og að góðum hagnaði verði skilað á þessu ári.
Frystihúsið er nú komið í fullan gang á ný eftir sumarfrí starfsmanna. Við vonum að kreppa í Evrópu ogaukin veiði í Barentshafi hafi ekki afgerandi áhrif á rekstur hússins. Enn eru þó blikur á lofti um fiskveiðstjórnun á Íslandi sem erfitt er að geta sér til um hversu mikil áhrif hefur á fiskvinnsluna.
Glæsileg Grenivíkurgleði var haldinn nú um miðjan ágúst. Hátíðin fór í alla staði vel fram. Skemmtikraftar voru frábærir og má þar nefna Einar töframann, Eyþór Inga og Gísla Einarsson. Viðurkenningu fyrir best skreytta húsið fengu Þórey og Stefán í Ægissíðu 8 á Grenivík. Aðstandendum hátíðarinnar er þakkað fyrir glæsilega skemmtun.
Grenivík í ágúst 2012, Guðný Sverrisdóttir