- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Þá eru páskarnir liðnir og sumardagurinn fyrsti á næsta leyti. Vonandi hafa flestir notið páskanna og fundið eitthvað við sitt hæfi að dútla við.
Helstu fréttir af sveitarstjórnarmálum í Grýtubakkahreppi eru þær að nú er fresturinn liðinn til að gera athugasemdir við deiliskipulag fyrir frístundabyggðina sem nefnd hefur verið Sunnuhlíð. Þar sem engar athugasemdir bárust má reikna með að eftirleikurinn verði auðveldur. Eina sem getur tafið okkur er vinna fornleifafræðingsins en þegar hann ætlaði að koma á staðinn fór að snjóa þannig að sú vinna er enn eftir.
Nú styttist í sveitarstjórnarkosningarnar en þær fara fram 27. maí nk. Þórður Stefánsson oddviti hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í næstu sveitarstjórn. Ekki hefur frést frá öðrum sveitarstjórnarmönnum en ákvörðun þarf að liggja fyrir í síðasta lagi 6. maí nk.
Þegar vorar hugsa eflaust margir með hryllingi um búfé á vegum. Erfitt hefur verið að koma Vegagerðinni að samningaborðinu fram að þessu en vissulega er ástæða til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og freista þess að koma á samkomulagi við Vegagerðina um lausagöngubann á Grenivíkurvegi og þá girðingu inn að Víkurskarðsvegi. Að mínu mati er þetta brýnt mál og vonandi kemst það í höfn áður en slys verður.
Í vikunni fyrir pálmasunnudag hélt Grenivíkurskóli sína árlegu vorskemmtun. Að vanda var hún vel sótt og skemmtiatriðin hjá börnunum voru ekki af verri endanum. Kærar þakkir fyrir góða skemmtun.
Nú er búið að endurlífga Ferðafélagið Fjörðung. Höfuðmarkmið félagsins er að taka björgunarskýlin í Fjörðum og á Látraströnd í fóstur, sjá um viðhald á þeim, útvega fé til framkvæmda og fólk til að vinna það sem gera þarf. Hugmyndin er að fara á hverju vori og taka snarpa og skemmtilega vinnutörn í skýlunum og að það verði eina hlutverk félagsmanna. Á dögunum var sent út dreifibréf þar sem áhugasömu fólki gefst kostur á að skrá sig í félagið. Björn Ingólfsson og Sigurbjörn Höskuldsson taka við skráningum. Það er ekki slæmt að eyða einni helgi í skemmtilegum félagsskap í óbyggðum bæði til gagns og gamans.
Gleðilegt sumar. Grenivík í apríl 2006, Guðný Sverrisdóttir.