- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Á síðasta fundi í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps var ársreikningur Grýtubakkahrepps fyrir árið 2012 samþykktur. Rekstrarniðurstaða af sveitarsjóði A hluta var kr. 16.668.000,- í hagnað og af samstæðunni kr. 16.751.000,- í hagnað. Er þetta meiri hagnaður en hefur verið mörg síðastliðin ár. Hluti af honum kemur til af söluhagnaði. Töluvert meira fór í snjómokstur og sorpmál en reiknað var með í áætlun en að sama skapi voru útsvarstekjur hærri þannig að niðurstöðutölur voru í samræmi við áætlun.
Í síðasta pistli mínum nefndi ég að haldið yrði íbúaþing í apríl. Ákveðið var að það yrði þriðjudaginn 23. apríl en vegna veikinda hefur því verið frestað fram á haust. Búið var að fá frábæra fyrirlesara þannig að nú vonum við bara að þeir verði tilbúnir að koma þótt síðar verði.
Nú líður að alþingiskosningum en eins og kunnugt er ganga landsmenn að kjörborðinu nk. laugardag. Mikið hefur verið um umræðuþætti og frambjóðendur spurðir spjörunum úr. Það sem hefur einkennt þættina þegar spyrlarnir eru úr Reykjavík, sem oftast er nú, er fáfræði um landsbyggðina og jafnvel hroki. Ekki er von á góðu þegar fjölmiðill allra landsmanna fer fram með slíkum hætti og ýtir enn frekar undir skilningsleysi höfuðborgarbúa á landsbyggðinni.
Eins og komið hefur fram er sveitarstjórn Grýtubakkahrepps afar ósátt við sérstaka veiðigjaldið sem sett var á fyrir skömmu. Þetta er landsbyggðskattur og kemur til með að rýra búsetuskilyrði á landsbyggðinni og setja margar minni og meðalstórar útgerðir í gjaldþrot. Hent hefur verið dúsum til þeirra sem mest veiðigjald greiða s.s ný Norðfjarðargöng og ný ferja til Vestmannaeyja. Aftur á móti hefur gleymst að henda dúsunni til okkar. T.d. færi ekki nema 3% af sérstaka veiðigjaldinu sem greitt er frá þessu sveitarfélagi í að setja vegrið milli Fagrabæjar og Ystu-Víkur en fram að þessu hefur verið talað fyrir daufum eyrum ráðamanna þjóðarinnar þegar vegamál í Grýtubakkahreppi eru nefnd. Ef til vill eykst skilningurinn svona rétt fyrir kosningar.
Grenivík í apríl 2013, Guðný Sverrisdóttir