- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Mikill tími hefur farið í gerð fjárhagsáætlunar Grýtubakkahrepps fyrir árið 2009. Þegar áætlaðar tekjur lækka um 11% og allir kostnaðarliðir hækka mætti álíta að það væri ómögulegt að koma áætluninni saman. Með því að snúa við hverjum steini var þó mögulegt að skila áætluninni með hagnaði A hluta sveitarsjóðs upp á kr. 1.237.000,-.
Ánægjulegt er að geta skilað þessari niðurstöðu án þess að þurfa að segja upp fólki. Samt sem áður hafa ýmsir starfsmenn sveitarfélagsins tekið á sig launaskerðingu og launahlutfall verið lækkað. Allir hafa tekið þessu með miklum skilningi og það ber að þakka. Nú er heimilt að hækka hámarks útsvarsprósentu úr 13,03% í 13,28%. Á fundi sveitarstjórnar 15. desember sl. var ákveðið að nýta ekki þessa heimild þar sem sveitarstjórn vildi frekar mæta tekjusamdrætti með hagræðingu í rekstri fremur en að hækka útsvarsprósentu. Ekki er þó öruggt að þessi ákvörðun standi þar sem möguleiki er á að sveitarfélagið missi úthlutun á aukaframlagi úr Jöfnunarsjóði ef hámarks útsvarsálagning er ekki nýtt. Ef fyrri ákvörðun verður breytt þarf að gera það fyrir áramót.
Helstu framkvæmdir á árinu 2009 verða bygging parhúss að Lækjarvöllum 1, lagfæring á Gamla skóla að utan og undirbúningur Höfðagötu undir malbikun.
Fyrir jólin leitar hugurinn oft frekar inn á við og til þeirra sem eiga um sárt að binda bæði vegna ástvinamissis og fjárhagserfiðleika. Það er styrkur samfélaga eins og Grýtubakkahrepps að þegar á bjátar stöndum við saman, slíkum einkennum megum við ekki glata. Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps vill leggja lóð á vogarskálarnar til að gera íbúunum lífið sem bærilegast. Því hefur verið ákveðið að gefa öllum íbúum og starfsmönnum Grýtubakkahrepps 3ja mánaða kort í líkamsrækt Grýtubakkahrepps og er vonast til að allir njóti vel.
Með jóla- og áramótakveðju,
Grenivík í desember 2008, Guðný Sverrisdóttir.
Túngötu 3, 610 Grenivík
Skrifstofan er opin mánudaga - fimmtudaga frá kl: 10:00-15:00 - Kt: 580169-2019