- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Á fundi sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps þann 22. desember sl. var fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps fyrir árið 2010 samþykkt. Áætlað er að A hluti sveitarsjóðs verði gerður upp með 81 þús. kr. hagnaði og samstæðan með 7.544 þús. kr. tapi. Reiknað er með að tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga dragist saman um 10 millj. kr. Í áætluninni eru fjárfestingar upp á 16.935 þús. kr. og fer langstærsti hlutinn í endurbætur á neðri hæð Grenivíkurskóla.
Sveitarfélögin fara ekki varhluta af efnahagsþrengingunum og má reikna með að íbúar Grýtubakkahrepps finni fyrir þrengri stöðu hjá sveitarfélaginu s.s. í snjómokstri og snyrtingu í sumar.
Um miðjan desember lauk framkvæmdum við byggingu parhúss, tveggja leiguíbúða, að Lækjarvöllum 1 á Grenivík. Þann 13. desember var opið hús og gátu gestir og gangandi kíkt við og kom yfir 100 manns í heimsókn. Nú þegar er flutt í aðra íbúðina en hin er enn laus.
Eftir tvo daga gengur nýtt ár í garð sem trúlega verður erfitt fyrir marga efnahagslega. Við verðum að þreyja þorrann og góuna og við vitum að öll él birtir upp um síðir.
Með von um að íbúar Grýtubakkahrepps sem og aðrir landsmenn hafi átt góða jólahátíð.
Gleðilegt nýtt ár!
Grenivík í desember 2009, Guðný Sverrisdóttir.