- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Á fundi sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps þann 1. febrúar sl. var þriggja ára fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps samþykkt. Í áætluninni er gert ráð fyrir framkvæmdum 2011 fyrir 22 milljónir kr. og ber þar hæst malbikun á Höfðagötu, Sælandi og Lækjarvöllum. Á árinu 2012 eru áætlaðar 17 milljónir kr. í framkvæmdir og ber þar hæst endurbætur á tjaldstæði og kaup á tækjum í áhaldahús og 2013 eru áætlaðar endurbætur á sundlaug og vatnsbúskap.
Um næstu áramót er gert ráð fyrir að málefni fatlaðra flytjist yfir til sveitarfélaganna. Grýtubakkahreppur er of lítið sveitarfélag til að geta eitt og sér tekið við þessum málaflokki þannig að sveitarstjórn þarf að finna önnur úrræði. Trúlega verðu reynt að semja við Akureyri um þjónustu eða myndað byggðasamlag um verkefnið. Tvö góð þorrablót voru haldin á þorra, hið árlega glæsilega þorrablót Höfðhverfinga og þorrablót á Grenilundi. Bæði þorrablótin voru þeim sem að þeim stóðu til mikils sóma. Nú er fiskvinnsla hafin aftur í frystihúsinu á Grenivík og búið að ráða tæplega 20 manns í vinnu. Ekki er annað vitað en að vinnslan gangi samkvæmt áætlun. Hvað sem framtíðin ber í skauti sér er enn um sinn mikils um vert að sjávarútvegur og fiskvinnsla sé öflug á stöðum eins og Grenivík þar sem þessi byggðarlög hafa byggst upp vegna nálægðar við fiskimiðin. Undirrituð verður í fríi frá 3. til 18. mars og munu Fjóla oddviti og Sigrún Björnsdóttir leysa úr málum meðan á fríinu stendur.
Grenivík í febrúar 2010, Guðný Sverrisdóttir.