- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Þriggja ára áætlun Grýtubakkahrepps 2012-2014 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 7. febrúar sl. Helstu fjárfestingar 2012 eru endurnýjun á dráttarvél og lagfæring á leikskóla. Árið 2013 er sitt lítið af hverju sem á að framkvæma og 2014 er lagfæring á Gamla skóla. Tekið skal fram að hér er meira um stefnumörkun að ræða.
Nú líður að því að lokið verði við að endurskipuleggja sorphirðu í Grýtubakkahreppi. Síðasta dag janúarmánaðar var haldinn mjög góður fundur um sorphirðumál í grunnskólanum á Grenivík. Um 100 manns sóttu fundinn sem var vonandi upplýsandi. Trúlega vakna spurningar hjá ýmsum um hvernig á að flokka, sérstaklega hjá þeim sem eru að hefja flokkun. Þá er um að gera að leita sér upplýsinga hjá starfsmönnum Grýtubakkahrepps eða vinum og vandamönnum. Einnig er gott að hafa við hendina bækling sem gefinn var út í tilefni breytinganna sem nefnist Flokkun til framtíðar í Grýtubakkahreppi. Bæklinginn er hægt að nálgast á skrifstofu Grýtubakkahrepps.
Á dögunum var dreift í öll hús í sveitarfélaginu skoðanakönnun á því hvort íbúar Grýtubakkahrepps hyggist eða hafi áhuga á að skipta um húsnæði á næstunni. Vonast er til að góð þátttaka verði í könnuninni þannig að hún verði marktæk.
Nú er undirrituð á leið í sólina á Kanaríeyjum og verður í fríi frá 22. febrúar til 8. mars. Sigrún Björnsdóttir og Jón Helgi Pétursson munu leysa úr málum af kostgæfni meðan á fríinu stendur.
Grenivík í febrúar 2011. Guðný Sverrisdóttir