- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Febrúar 2014.
Þá er sólin loksins farin að skína á okkur hér á Grenivík og aðra íbúa sveitarfélagsins. Eftir mínum útreikningum þá ætti sólin núna að vera komin vestur í Höfðagötu en ég reikna með að víða glaðni yfir sálartetrinu þegar geislarnir fara að teygja sig inn um gluggana.
Nú eru framkvæmdir hafnar í Túngötu 3 (Jónsabúð). Þetta er mikil framkvæmd og margir endar sem þarf að hnýta. Ég trúi því staðfastlega að þegar framkvæmdum er lokið verði þetta mikil lyftistöng fyrir samfélagið. Vonandi koma sem flestir til með að leggja leið sína í þessa nýju miðstöð þannig að hún nái að dafna. Það er alveg klárt að það er ekki staðið í þessum framkvæmdum og kostnaði einungis til þess að fólk horfa á dýrðina það þarf líka að nýta hana. Í byrjun febrúar var vorskemmtun Grenivíkurskóla. Í ár voru Dýrin í Hálsaskógi leikin. Alltaf er vandað til vorskemmtuninnar og hún hin besta skemmtan en í ár var hún með allra besta móti. Þessi skemmtun hefði sómt sér vel í hvaða leikhúsi sem er. Krakkar, kærar þakkir fyrir frábæran leik. Fleiri góðar skemmtanir hafa litið dagsins ljós hér í sveit og má þar nefna þorrablótið á Grenilundi. Það er aðdáanlegur dugnaður í starfsfólki Grenilundar að halda slík þorrablót og alls ekki sjálfgefið. Þetta var í allastaði frábært þorrablót, góður matur og skemmtiatriðin engu lík. Starfsmenn Grenilundar, þið eruð hetjur. Nú fer að líða að hinni árlegu ferð sveitarstjóra Grýtubakkahrepps suður á bóginn en viðkomandi verður í leyfi frá 25. febrúar til 13. mars nk. Jón Helgi og Guðrún á skrifstofunni munu leysa þau mál sem upp kunnu að koma. Grenivík í febrúar 2014, Guðný Sverrisdóttir.