- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Eins og íbúar Grýtubakkahrepps hafa eflaust tekið eftir þá eru og hafa verið miklar framkvæmdir í gangi hjá sveitarfélaginu. Viðgerð á sundlaug er lokið nema eftir er að setja dúk á stéttar sundlaugarinnar. Tjaldstæðið fer að verða okkur til sóma, þjónustuhúsið er eins og best gerist og einungis á eftir að lagfæra neðri hluta svæðisins, en eins og vegfarendur hafa eflaust tekið eftir þá hafa þökurnar sem settar voru í fyrrahaust farið illa. Nú vantar einungis ferðamenn sem trúlega sést lítið til meðan kuldatíðin helst. Bæjarverk bíður í startholunum með að hefja malbikun en rigning undanfarna daga hefur sett strik í reikninginn.
Þessa dagana er verið að setja upp upplýsingamiðstöð í Jónsabúð. Reiknað er með að í byrjun júlí verði búið að tína það til sem þar á að vera en af ýmsum ástæðum hefur það dregist á langinn. Þann 18. júní sl. var Gallery Miðgarðar opnað. Þar er ýmislegt að skoða auk þess sem alltaf er heitt á könnunni. Galleryið er opið frá kl. 13-17 alla daga til 15. ágúst. Gallery Glóa er líka búið að hasla sér völl með þeim frábæru vörum sem Eygló framleiðir. Útgerðarminjasafnið verður einnig opið frá kl. 13-17 alla daga til 15. ágúst.
Fátt er meira rætt en kuldakastið sem nú hefur staðið yfir í einn og hálfan mánuð. Það er víst lítið annað hægt að gera en vona að það hlýni sem fyrst. Þótt öllum þyki kuldinn leiðinlegur þá er þeim mest vorkunn sem eiga allt sitt undir veðurfarinu s.s bændur og ferðaþjónustuaðilar en Íslendingar hafa lítið gert af því að heimsækja Norðurlandið nú í sumar og lái þeim hver sem vill.
Með von um hlýnandi veður,
Grenivík í júní 2011, Guðný Sverrisdóttir.