- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Þann 25. apríl sl. gekk íslenska þjóðin til alþingiskosninga og síðastliðinn sunnudag var mynduð ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Þeim er óskað velfarnaðar í þeim erfiðu verkefnum sem framundan eru við að stýra þjóðarskútunni sem minnst laskaðri til hafnar.
Eins og flestir vita eru blikur á lofti hvað varðar fiskvinnslu á Grenivík. Enn er ekki ljóst hvort okkur ber gæfa til að endurreisa hana en töluverð vinna hefur verið lögð í að finna sem besta leið en ekkert er í hendi þessa stundina. Einnig er óljóst hvaða áhrif breyting á fiskveiðikerfi Íslendinga, eins og ný ríkisstjórn hefur boðað, hefur í för með sér.
Hafin er bygging parhúss að Lækjavöllum 1 á Grenivík. Verktaki er SJBald ehf., áætluð verklok eru 15. desember 2009. Eru þetta tvær fjögurra herbergja íbúðir afar skemmtilegar og vel útbúnar í alla staði. Þeir sem hafa áhuga á að fá þær leigðar eru vinsamlega beðnir að hafa samband við undirritaða.
15. júní nk. verður opnað útgerðarminjasafn á Grenivík að Sælandi 2 eða í Hlíðarenda eins og húsið er kallað. Þessa dagana er verið að setja þar upp sýningu og lofar hún góðu. Reiknað er með að safnið verði opið alla daga frá kl. 13 til 17 til 15. ágúst.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps stóð fyrir íbúaþingi í lok apríl. Ánægjulegt var hvað þingið var vel sótt. M.a var fjallað um aðalskipulag Grýtubakkahrepps sem nú er í vinnslu, atvinnumál sem brenna á mörgum íbúum í dag og sorphirðumál en fróðlegt er að fylgjast með breytingu á sorpmagni eftir að endurvinnslutunnurnar komu.
Með Eurovision kveðju,
Grenivík í maí 2009, Guðný Sverrisdóttir.