Pistill,

Góðir lesendur!
     Þá eru verkefni sumarsins komin í fullan gang og hver dagurinn betri en annar hvað veðurfar snertir.      Bændur eru búnir að koma fé sínu á afrétt fyrir löngu og flestir langt komnir með að slá.  Nú er gæðastýring í sauðfjárrækt að hefja innreið sína og því þarf að gera  landnýtingaráætlun fyrir afréttinn.  Það var því nú í fyrsta skipti í vor sem sveitarstjórn ákvað hvenær mætti heimila rekstur á afrétt að fengnu áliti Gróðurverndarnefndar Eyjafjarðar og fulltrúa Landgræðslunnar.  Einhverjir bændur fóru með fé sitt fyrr.  Að mínu mati eru það byrjunarörðugleikar þar sem viðkomandi bóndi fær þá ekki vottaða gæðastýringu hjá sér ef hann fer ekki eftir settum reglum, en það er stórt hagsmunarmál fyrir viðkomandi bónda.  Eins er óleyfilegt að hleypa fé upp fyrir girðingu meðan ekki er búið að gefa leyfi til sleppingar í afrétt.      Mikið hefur verið kvartað yfir sauðfé á vegum og er það ekki að ástæðulausu.  Sveitarstjórn hefur verið að þrýsta á Vegagerðina með að girða veginn af. Vonandi verður það fyrr en síðar en eðlilega veltir þá Vegagerðin því upp hvort ekki þurfi að girða Víkurskarðið líka af.  Í það minnsta er þetta ófremdarástand og vonanadi finnst lausn á málinu áður en slys hlýst af.      Framkvæmdir við viðbyggingu við íþróttamiðstöð eru nú hafnar.  Því miður var ekki hægt að hafa sundlaugina opna lengur en raun ber vitni.  Meðan á framkvæmdum stendur verður leiðindar ástand en þegar verkinu lýkur haustið 2005 verður aðstaða til allrar íþróttaiðkunnar í sveitarfélaginu gjörbreytt.      Í lok júní var tekið í notkun nýtt gistiheimili á Grenivík sem nefnist Hamraborg.  Mér finnst það skemmtilegt nafn því húsið stendur þar sem gamli beitningarskúrinn Hamraborg stóð. Sænes ehf. á húsið en leigir það til Miðgarða ehf. sem er með veitinga- og gistiþjónustu.      Alltaf færist meira og meira í vöxt að ættarmót séu haldin hér á Grenivík. Aðstaða til slíkra hátíðahalda er nokkuð góð hér í byggðalaginu og ekki síst eftir að nýja gistiheimilið tók til starfa og enn betri verður hún þegar viðbygging við íþróttamiðstöðina verður komin í gagnið og nýr golfvöllur í Hvammi.      Já nú fer að líða að því að nýr golfvöllur verði tekinn í notkun.  Framkvæmdin lofar góðu og að mínu áliti verður hann mikil lyftistöng fyrir byggðalagið og verður til þess að fleiri vilja sækja okkur heim.      Frá 12. til 23. júlí (báðir dagar meðtaldir) verður skrifstofa Grýtubakkahrepps lokuð.  Vonast ég til að það valdi ekki miklum óþægindum. Hægt er að ná í mig í neyðartilfellum í síma 864-4504 og þeir sem þurfa að hafa samband vegna atvinnuleysisskráningar eru vinsamlega beðnir að hafa samband við Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra í síma 460-5100.      Þessa dagana er verið að reyna að fegra þorpið.  Þegar grasvöxtur er mikill náum við ekki alltaf endum saman. Þó svo sé er það óásættanlegt því öll viljum við búa í snyrtilegu þorpi sem við getum verið stolt af.  Því langar mig til að beina því til hestamanna að ríða sem minnst á götum þorpsins og ef hestarnir gera þarfir sínar á götuna er viðkomandi vinsamlega beðin að hreinsa skítinn eftir hestinn. Vona ég að lokum að þið eigið gott og gæfuríkt sumar.

Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri.