Pistill,

Góðan dag gott fólk. Langt er nú síðan ég hef stungið niður penna og skrifað pistil á heimasíðu Grýtubakkahrepps.  Ósagt skal látið hvort það stafar af leti eða annríki. 

Af sveitarstjórnarmálum á landsvísu er það helst að frétta að nú er nánast komið á samkomulag um nýja tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en á síðustu árum hefur hallað mjög á hlut sveitarfélaga í þeim viðskiptum eins og sést á afkomu sveitarfélaga en árið 2003 voru 2/3 þeirra rekin með tapi.  Þegar fyrrnefnt samkomulag er í höfn verður hægt að snúa sér að sameiningu sveitarfélaga.  Í fyrstunni stóð til að kjósa 23. apríl nk. en ljóst er að svo verður ekki.  Því verður annaðhvort kosið í haust eða kosningum frestað  fram á næsta kjörtímabil.  Hvort kosið verður í Grýtubakkahreppi er ekki ljóst enn og ekki heldur þá um hvaða tillögu.  Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps ályktaði á eftirfarandi hátt um sameiningu Grýtubakkahrepps á fundi sínum þann 10. janúar sl.  "Sveitarstjórn telur hag íbúa Grýtubakkahrepps best borgið með því að sameinast ekki öðrum sveitarfélögum í Eyjafirði, vegna þess að hún telur hættu á að þjónusta við íbúa muni skerðast, þar sem byggðalagið yrði jaðarsvæði í sameinuðu sveitarfélagi.  Eins telur sveitarstjórn að íbúar muni ekki njóta fjárhagslegs ávinnings af sameiningunni og glata forræði yfir eignum, sem nýst hafa við uppbyggingu byggðalagsins.  Samt sem áður telur sveitarstjórn eðlilegt að íbúar sveitarfélagsins kjósi um væntanlegar tillögur sameiningarnefndarinnar." Það er trú mín að ef íbúar Grýtubakkahrepps vilja vera í sér sveitarfélagi verður þeim ekki þröngvað í sameiningu fyrst um sinn.

Af sveitarstjórnarmálum heima í héraði eru sorpmálin ofarlega í huga mínum.  Ég man ekki í hve mörg ár sveitarstjórnamenn við Eyjafjörð eru búnir að velta fyrir sér nýjum urðunarstað, en urðun á Glerárdal þykir ekki framtíðarlausn.  Síðasta hálmstráið var urðunarstaður í Arnarneshreppi en nú virðist hann einnig úr sögunni þannig að Eyfirðingar eru komnir aftur á byrjunarreit.  Við hljótum að eiga að velta því fyrir okkur hvort ekki sé áhugavert að ná lendingu með Þingeyingum eða Skagfirðingum en þessi héruð eru að reyna að finna lausn á sínum urðunarmálum eins og Eyfirðingar.  Það er ósk mín að verðandi framkvæmdarstjóri Sorpeyðingar Eyjafjarðar komi með nýja strauma inn í umræðuna sem leiði okkur í rétta átt, því nýir vendir sópa best.

Eflaust hafa einhverjir íbúar Grýtubakkahrepps orðið varir við að lagt var á seyrugjald í fyrsta skipti með fasteignagjöldum nú í ár. Ekki stafar það af því að sveitarstjórn hafi slíkan áhuga á að skipta sér af þeim málum, heldur ber henni skylda til að sjá um að losun rotþróa sé í réttum farvegi.  Ef aðilar eru ekki sáttir við gjaldið er hægt að sækja um til sveitarstjórnar að fá að sjá um þetta sjálfur og hafa þá samning við viðurkennt fyrirtæki sem sér um losun rotþróa.

Næstkomandi þriðjudag fer undirritaður í sitt árlega frí til Kanaríeyja.  Það er kærkomið þegar uppgjöri síðasta árs er lokið að taka sér smá frí og horfa síðan fram á veginn þegar heim er komið.  Þann hálfan mánuð sem ég verð í burtu mun starfsfólk skrifstofu Grýtubakkahrepps leysa úr þeim verkefnum sem upp kunna að koma með dyggri aðstoð oddvita.

Með kveðju, Guðný Sverrisdóttir