- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Eftir gott veður um páska er nú komið síðbúið páskahret. Við skiljum ekkert í þessu en ég minni á að síðastliðin ár hefur slíkt hret komið í maí þannig að við skulum bara vona að þetta sé síðasta gusan á vetrinum.
Í síðasta pistli mínum nefndi ég að sátt væri að komast á varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Það er ef til vill eðlilegra að tala um niðurstöðu en sátt því þegar samkomulagið er skoðað nánar virðist heldur lítið falla til sveitarfélaga eins og Grýtubakkahrepps. Má nefna að nú á ríkið að fara að greiða fasteignaskatt en heldur lítið er af ríkisstofnunum í þessu sveitarfélagi. Eins á að bæta sveitarfélögum upp tekjutap þegar félagslegar leiguíbúðir sveitarfélaga standa auðar en því er ekki til að dreifa hjá okkur. Þá eru það 700 millj. kr. sem skipta á úr Jöfnunarsjóði og ef að líkum lætur fáum við lítið af því.
Mikið er rætt um álver í Eyjafirði og á fleiri stöðum á Norðurlandi þessa dagana og sitt sýnist hverjum. Margir áratugir eru síðan fyrst var farið að tala um álver í Eyjafirði þannig að þetta er engin ný bóla. Að mínu mati er röðin komin að okkur hér í Eyjafirði ef hægt er að fá orku og hana á sambærilegu verði. Lóðin á Dysnesi er góð og þar hafa farið fram miklar rannsóknir. Ef álver kæmi í Eyjafjörð yrði það mikil lyftistöng fyrir héraðið. Oft er sagt að við þurfum öðruvísi störf en við skulum vera minnug þess að um þriðjungur starfa í álveri krefst háskólamenntunar og síðan eru það afleiddu störfin sem eru mörg. Oft finnst mér að það fólk sem vinnur í Háskólanum á Akureyri sé frekar á móti álveri. Vert er fyrir þetta fólk að hugleiða að ekki er nóg að útskrifa nemendur þeir þurfa að fá eitthvað að gera og þetta "eitthvað" liggur ekki á lausu.
Þann 27. apríl nk. verður íbúaþing í Grýtubakkahreppi þar sem rætt verður m.a. um sameiningu sveitarfélaga og hraðahindranir á Grenivík. Það er mál manna að nauðsynlegt sé að setja upp hraðahindranir eða lækka hámarkshraða niður í 30 km/klst. Gaman væri að heyra hvað fólki líst best á í þeim efnum því hvet ég sem flesta til að mæta á íbúaþingið, bæði til að láta í ljós skoðanir sínar og eins að heyra af málefnum sveitarfélagsins.
Grenivík 7. apríl 2005.
Með kveðju, Guðný Sverrisdóttir.