- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Kæru lesendur.
Ég hef trúlega aldrei þótt spámannlega vaxin, hélt að ekkert maíhret kæmi í ár en það hefur trúlega aðeins verið óskhyggja og þá er næst að vona að kuldanum fari að linna.
Það virðist vera alveg nauðsynlegt að hafa áhyggjur af einhverju og nú er það opnunin á sundlauginni. Þessa daganna er verið að skoða allar leiðir, hvernig sé best að standa að opnuninni og hvenær það verði hægt. Vonandi fara málin að skýrast á næstu dögum og verður þá gefin út tilkynning þess efnis.
Í síðasta mánuði var aðalfundur Sparisjóðs Höfðhverfinga. Var þessi fundur með þeim ánægjulegri sem ég hef farið á. Í fyrsta lagi var afkoman með ágætum og í öðru lagi var afar gaman að hlusta á Björn Ingólfsson segja frá stofnun Sparisjóðsins og sögu hans í stórum dráttum. Ég held því að allir geti hlakkað til að lesa sögu Sparisjóðsins þegar hún kemur út.
27. apríl sl. var haldið íbúaþing í Grýtubakkahreppi. Þingið var vel sótt, en aðalefnið á dagskránni var sameining sveitarfélaga og fór meirihluti fundartímans í þann lið. Þetta er stórt mál fyrir okkur öll og því er gott að setja sig vel inn í málið. Nú er búið að ákveða að kosningar fari fram 8. okt. nk. Starfandi er nefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa kosningarnar. Í henni eru Þórður Stefánsson og Jóhann Ingólfsson frá Grýtubakkahreppi.
Á hvítasunnudag voru sex ungmenni fermd í Grenivíkurkirkju og nýtt safnaðarheimili tekið í notkun. Ég vil nota þetta tækifæri og óska fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra til hamingju. Kæru fermingarbörn! Ég veit að þið eruð með góð spil á hendi og hafið sýnt hvað í ykkur býr t.d. á vorskemmtuninni í vetur, í stóru upplestrarkeppninni, í íþróttum og fleiru. Glutrið ekki góðum tækifærum sem bíða ykkar.
Að lokum vona ég að við eigum öll gott sumar framundan.
Grenivík í maí 2005, Guðný Sverrisdóttir.