- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Sjálfsagt hefur ekki farið framhjá neinum sem býr í Grýtubakkahreppi eða hefur lagt leið sína um sveitarfélagið að ýmsar framkvæmdir eru í gangi.
Búið er að leggja gerfigrasið á nýja sparkvöllinn og vonandi verður hann tilbúinn til notkunar í byrjun september. Þetta er svokallaður KSÍ völlur, en KSÍ leggur til gerfigrasið en sveitarfélagið undirlag, batta, lýsingu og annað. Á tímabili stefndi í að hætta þyrfti við völlinn þar sem sveitarfélagið stendur í stórframkvæmdum og kassinn orðinn tómur, en samtakamátturinn í sveitarfélaginu gerði það að verkum að stór hluti er unninn í sjálfboðavinnu og varð það til þess að völlurinn varð að veruleika. Hér með er öllum sem hafa lagt hönd á plóginn og koma til með að gera það færðar bestu þakkir.
Unnið er að öðru þrekvirki, en það er lagfæring á leikvellinum við Túngötu. Fyrirtæki hafa lagt fram myndarleg framlög og ný leiktæki tínast á völlinn eitt af öðru. Kærar þakkir fyrir þessi góðu framlög bæði í vinnu og peningum.
Svo er það nú blessuð íþróttamiðstöðin okkar. Búið er að taka nýbygginguna í notkun að hluta og búið er að opna sundlaugina þannig að hreppsbúar og aðrir eru farnir að bleyta í sér. Mánudaginn 8. ágúst hefst svo sundkennsla svo vonandi fer allt að komast á rétt ról.
Vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt þarf sveitarfélagið að samþykkja landbóta- og landnýtingaráætlun fyrir afréttir í Grýtubakkahreppi. Það þýðir m.a. að sveitarstjórn þarf að ákveða hvenær megi sleppa sauðfé á afrétt. Einnig má ekki sleppa stórgripum í afrétt fyrr en 1. júlí og þá einungis þeim sem tilheyra íbúum Grýtubakkahrepps. Það hefur valdið vonbrigðum að ýmsir eiga erfitt með að fara eftir settum reglum. Ég vil þó taka það fram að það sem hér að ofan er sagt á aðeins við lítinn minnihluta.
Nú á næstunni verður settur 30 km hámarkshraði á Grenivík. Er þetta gert að illri nauðsyn. Þótti það skárra en setja hraðahindranir á göturnar. Ég bið þá sem aka um götur þorpsins að virða þennan hámarkshraða.
KEA og Grýtubakkahreppur hafa gert með sér samkomulag um að vinna að veglagningu upp í Grenjárdal. Þessa dagana er verið að leita að besta vegarstæðinu og fjármagni. Vonandi verður hægt að hefjast handa í haust ef framangreind atriði ganga eftir.
Með von um að allir njóti sumarsins.
Grenivík, í ágúst 2005, Guðný Sverrisdóttir