- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Kæru lesendur!
Hvað hefur nú verið efst á baugi upp á síðkastið? Á landsvísu er það trúlega karp forseta og forsætisráðherra um hvort forsetinn hafi átt að vera heima eða að heiman, en það skiptir mig persónulega minna máli en hvort viðunandi lausn fæst í málefnum sparisjóðanna. "Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur". Það máltæki álít ég að ætti vel við ef sparisjóðurinn okkar færi. Sama má segja um verslunina og finnst mér að íbúar Grýtubakkahrepps ættu að hafa það í huga, enda veit ég að margir hafa það.
Efst á baugi í okkar sveitarfélagi þessar vikurnar er trúlega snjór og aftur snjór. Snjór og skammdegi fara ekki alltaf vel saman og hefur stundum neikvæð áhrif á sálartetrið. Verst er þegar fólk kemst ekki leiðar sinnar vegna snjóa. Við hjá Grýtubakkahreppi reynum að veita góða þjónustu við snjómokstur þótt alltaf megi gagnrýna forgangsröð þegar fannfergi er orðið mikið. Að mínu mati hefur Vegagerðin staðið sig afskaplega vel í snjómokstri á Grenivíkurleið og ber að þakka það.
Mikið og gott þorrablót var haldið hér á dögunum í sveitarfélaginu. Eins og ég hef getið um fyrr í pistlum mínum eru svona skemmtanir hluti af því að gera samfélagið sem við búum í að því sem það er. Mig langar til að þakka fyrir þá viðurkenningu sem ég fékk á blótinu. Í hreinskilni þá yljar slíkt um hjartarætur og þegar ég finn slíkan hlýhug þá átta ég mig enn betur á hvað ég vinn í góðu samfélagi.
Mánudaginn 9. febrúar sl. var þriggja ára áætlun Grýtubakkahrepps samþykkt. Helstu niðurstöður eru þessar:
í þús kr. |
2004 |
2005 |
2006 | 2007 |
Rekstrarniðurst. | 4.608 | 3.785 | 2.785 | 2.585 |
Fjárfesting | 31.137 | 34.990 | 13.990 | 14.990 |
Handbært fé í árslok | 3.052 | 1.247 | 3.742 | 237 |
Langstærsta framkvæmd tímabilsins er nýbygging við skóla, íþróttahús og sundlaug.
Nú hækkar sól á lofti og birtan nær til okkar á ný.