- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Nú líður að kosningum um sameiningu sveitarfélaga, en 8. október nk. ganga íbúar Grýtubakkahrepps að kjörborðinu sem og aðrir íbúar við Eyjafjörð og kjósa um hvort þeir vilja sameina öll sveitarfélög við Eyjafjörð í eitt sveitarfélag.
Í dag eru 9 sveitarfélög á svæðinu auk Grímseyjar en ekki er gerð tillaga um að íbúar þar sameinist í þessum kosningum. Nú á næstunni verður bæklingi dreift inn á öll heimili á svæðinu þar sem tillögurnar eru kynntar. 28. september nk. verður svo kynningarfundur í grunnskólanum á Grenivík. Þeir sem ekki verða heima 8. október eru hvattir til að nýta kosningarétt sinn og kjósa hjá hreppstjóra á Bárðartjörn fyrir kosningar.
Nú er grunnskólinn hafinn á ný og virðist allt starf þar fara vel af stað. Ráðinn hefur verið svokallaður matráður sem er Kristjana Hallgrímsdóttir og veitir trúlega ekki af þar sem í vetur verða um 80 manns í mötuneytinu. Anna Margrét Bjarnadóttir hefur verið ráðin í þrif og fleira í íþróttamiðstöðinni. Þá er einungis eftir að ráða í félagsmiðstöðina en vonandi stendur það til bóta.
Eins og komið hefur fram er verið að skoða hvort hagkvæmt er að leggja hitaveitu frá Reykjum í Fnjóskadal til Grenivíkur. Þetta er mjög spennandi verkefni. Enn er hallinn þó töluverður í áætlunum en við verðum að hugsa okkur vel um áður en við sleppum þessu tækifæri. Verst er að æðimörg hús eru með rafmagnsþilofna og fyrir þá notendur er talsverður kostnaður að skipta yfir í hitaveitu. Á næstunni verður verkefnið kynnt fyrir íbúum svæðisins.
Þessa dagana er verið að útbúa göngu- og reiðkort fyrir Grýtubakkahrepp og er verkið unnið í samstarfi við Héraðsnefnd Þingeyinga. Þetta er hluti af því að laða ferðamenn inn á svæðið. Ef til vill ætti að gera átak í ferðamálum í sveitarfélaginu á næstu misserum því við höfum upp á ýmislegt að bjóða og þurfum að láta vita af því.
Nú í haust verður gert skáplan fyrir smábáta í Grenivíkurhöfn. Reiknað er með að það komi í hvilftina ofan við löndunarkranann. Verktaki verður Katla ehf.
Með von um sumarauka í september.
Grenivík, í september 2005, Guðný Sverrisdóttir.