- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Stefán Böðvar Þórðarson fæddist í Árbakka á Látraströnd 11. janúar 1938. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grenilundi á Grenivík 21. október 2024.
Foreldar hans voru Kristín Elín Stefánsdóttir, f. 11.1. 1916, d. 26.11. 1989 og Þórður Jakobsson, f. 14.10. 1906, d. 8.7. 1978. Bróðir Stefáns er Jakob Helgi, f. 9.3. 1946.
Stefán kvæntist þann 19. nóvember 1960 Hafdísi Björk Hermannsdóttur, f. 5.7. 1940, d, 18.7. 2012. Foreldrar hennar voru Guðrún Bjarnadóttir, f. 14.2. 1913, d. 18.10. 1976 og Hermann Tryggvason, f. 2.6. 1907, d. 27.8. 1970.
Synir Hafdísar og Stefáns eru: Þórður, f. 17.9. 1961, d. 18.1. 2023, eftirlifandi kona hans er Margrét Hildur Kristinsdóttir, Hermann, f. 20.10. 1962, kvæntur Ragnheiði Maríu Harðardóttur og Böðvar, f. 16.1. 1964, kvæntur Karólínu Dóru Þorsteinsdóttur.
Stefán ólst upp í Árbakka en flutti í Hvamm í Höfðahverfi með foreldrum sínum árið 1951. Að loknum barnaskóla fór Stefán 16 ára gamall á vetrarvertíð í Grindavík en á 19. ári fór hann einn vetur í Laugaskóla. Vetrarvertíðarnar í Grindavík urðu samtals sjö en Stefán vann í landi jafnframt því að aka vörubíl þrjú síðustu árin. Stefán vann við mjólkurbílaakstur á árunum 1961-1963. Árin 1960 til 1963 voru Hafdís og Stefán til heimilis í Árbæ, en hófu búskap í Hvammi í félagi við foreldra Stefáns árið 1963. Þau bjuggu í Hvammi til ársins 1979 en þá fluttu þau til Grenivíkur. Stefán sat í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps á árunum 1974-1982 auk þess að eiga sæti í skólanefnd og sýslunefnd. Árið 1987 fluttu þau til Akureyrar þar sem Stefán vann ýmis skrifstofustörf. Stefán var félagi í Oddfellowreglunni frá árinu 1989.
Stefán gengdi starfi sveitarstjóra hjá Grýtubakkahreppi á árunum 1979-1987. Þetta voru uppbyggingarár, m.a. var lokið við byggingu Grenivíkurskóla. Stefán sinnti störfum sínum af mikilli trúmennsku og nákvæmni. Stefán var afar ánægður að fá að búa á sínum kæru heimaslóðum síðustu misserin og njóta þar góðrar aðhlynningar á Grenilundi í nálægð við hluta af sínu fólki.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps vottar Stefáni virðingu sína með þakklæti fyrir hlut hans í þróun sveitarfélagsins. Aðstandendum öllum eru færðar samúðarkveðjur.
Útför Stefáns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 4. nóvember 2024, kl. 13:00.