Bygging nýrra leiguíbúða hafin

Smiðir Trégrips að slá upp fyrir grunni.
Smiðir Trégrips að slá upp fyrir grunni.

Á dögunum var undirritaður verksamningur milli Grýtubakkahrepps og Trégrips ehf. um byggingu fjögurra nýrra leiguíbúða á Grenivík.  Byggðar verða tvær 2ja herbergja íbúðir og tvær 3ja herbergja í einu raðhúsi við Kirkjuveg nr. 1 til 3.  Verksamningur hljóðar upp á 87 millj.kr. og er áformað að byggingu íbúðanna verði lokið á næstu 12 mánuðum.  Trégrip mun skila íbúðunum fullbúnum með frágenginni lóð og bílastæðum.

Biðlisti eftir íbúðum hefur verið að lengjast hjá sveitarfélaginu, þrátt fyrir að byggðar hafi verið 4 íbúðir á s.l. 3 - 4 árum.  Vonandi léttir þessi framkvæmd aðeins á, en hún mun þó vart ná að anna þeirri eftirspurn sem er eftir húsnæði.  Stefnt er að því að selja einhverjar af íbúðum sveitarfélagsins á næstu árum þegar færi gefast, en óvíst hvenær það verður.