- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Sveitarstjórn staðfesti á fundi sínum 13. desember 2021, fjárhagsáætlun fyrir árin 2022 – 2025. Reksturinn er áfram með sama sniði og er gert ráð fyrir tekjuafgangi 2022 upp á tæpar 5 millj.kr. Þrengt hefur að rekstri síðustu ár, einkum hafa launahækkanir verið langt umfram verðlag og hlutfall launa af heildargjöldum hefur hækkað mikið síðustu árin.
Fjárhagsstaða verður þó áfram traust og skuldir mjög hóflegar þrátt fyrir nokkrar fjárfestingar. Á árinu 2022 er áætlað að eignfærð fjárfesting nemi um 56 mkr. Helstu liðir eru ný gatnagerð, endurnýjun í skólanum, t.d. snyrtinga á efri hæð og loks uppsetning nýrra safntanka fyrir vatnsveituna til að auka miðlunargetu hennar. Gert er ráð fyrir nýrri lántöku á árinu upp á 40 mkr. vegna framkvæmda.
Á árinu 2021 voru helstu fjárfestingar að skipt var um þak á skólanum eftir um 40 ár, keyptir voru safntankar ásamt lokum og öllum tengihlutum fyrir vatnsveituna og lokið við framkvæmdir í sundlauginni, s.s. snjóbræðslu í gömlu stéttirnar og ný yfirbreiðsla keypt á laugina. Lán var tekið á árinu hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 25 mkr. Ein íbúð var seld á árinu og greitt upp lán sem á henni hvíldi.
Gjaldskrár hækka almennt um nálægt 4% á árinu 2022. Þó er vert að nefna að vistunargjöld í leikskóla og skólavistun verða óbreytt áfram, hafa verið það síðan 1. janúar 2016, en fæðisgjöld í leikskóla og grunnskóla hækka nú um 2%. Gjaldskrá sundlaugar hækkar síðan nokkuð meira en aðrar gjaldskrár, enda aðstaða þar gjörbreyst með fjárfestingum síðustu ára. Námsgögn verða áfram frí við Grenivíkurskóla.
Helstu forsendur fjárhagsáætlunar eru þessar:
Veruleg uppbygging er hafin á Grenivík, bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Reikna má með bæði fjölgun íbúa og auknum skatttekjum næstu árin vegna þessarar uppbyggingar, ekki er þó tekið tillit til þess í tekjuáætlun, áætlanagerðin er því fremur hófstillt að þessu leyti.
Fjárhagsáætlun áranna 2022 – 2025 í heild er að finna í þessu pdf-skjali.