- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Hún hefur nokkuð verið í umræðunni undanfarið reiknivél viðskiptaráðs, „hvar er best að búa?“. Þó sumt sé mælanlegt í krónum og aurum, er þessi mælikvarði þó nokkuð takmarkandi, enda margt sem myndar almenn lífsgæði af öðrum toga en peningalegum. Umhverfi og náttúrufar, samhugur, dugnaður og viðhorf íbúa, gæði stofnana og þjónustu, bara svo fátt eitt sé nefnt.
Grýtubakkahreppur virðist í fljótu bragði í meðallagi á þessum fjárhagslega skala viðskiptaráðs. Af þessu tilefni er rétt að nefna nokkur atriði sem sveitarstjórn hefur verið að vinna að, og snúa beint að því að skapa betri lífsskilyrði fyrir íbúa. Ekki síst snertir það hag barnafjölskyldna.
Á síðasta ári var innkaupalisti ritfanga við Grenivíkurskóla sem foreldrar fengu styttur verulega og í haust mun skólinn sjá nemendum fyrir ritföngum að fullu, þ.e. foreldrum að kostnaðarlausu. Það er samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar við gerð fjárhagsáætlunar s.l. haust.
Leikskólagjöld og vistunargjöld í skólavistun voru ekki hækkuð á þessu ári og hafa því verið óbreytt frá 1. janúar 2016.
Á þessu ári var tekinn upp frístundastyrkur vegna barna á grunnskólaaldri, hægt er að sækja um hann til næstu áramóta vegna iðkunar á þessu ári.
Þá má nefna framkvæmdir við sundlaug og vetraropnun hennar sem hefur mælst vel fyrir. Stefnt er að enn frekari uppbyggingu við sundlaugina og er óhætt að fullyrða að íþróttamiðstöðin og sú aðstaða öll sem þar er komi íbúum vel til góða.
Með byggingu Grenilundar var á sínum tíma stigið risaskref í þjónustu á Grenivík. Þó ríkið hafi löngum skammtað naumlega fé til rekstrar og sveitarfélagið þurft að taka á sig meiri kostnað en þvi ber að lögum, er þeim peningum vel varið sem tryggja öldruðum góða þjónustu og vellíðan síðasta spölinn.
Sveitarfélagið hefur reynt eftir föngum að vinna að því að umhverfi sé snyrtilegt og íbúar eru einnig almennt duglegir að fegra, mála og viðhalda sínum eignum og lóðum. Þegar saman fara góðar stofnanir þar sem börnin eru nestuð ríflega til sinnar lífsgöngu, aldraðir búa við hlýja og faglega umönnun í fallegri umgjörð, íbúar hafa næga atvinnu og lifa velviljaðir í bærilegri sátt hver við annan, verður til gott samfélag. Frjáls félög dafna og jákvæður andi verður ráðandi.
Það eru eflaust margir staðir sem hægt er að segja að gott sé að búa á, en ég ætla að taka mér orð mér frægari bæjarstjóra í munn og segi óhikað; Það er gott að búa í Grýtubakkahreppi!
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri