- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Við getum öll verið sammála um að veturinn hefur verið erfiður fyrir okkur hér í Grýtubakkahreppi sem og marga aðra Norðlendinga. Má segja að hann hafi komið í september og enn er freri þótt rauðar tölur hafi sést síðustu daga. Vonandi haldast þær áfram þannig að kalskemmdir verði í lágmarki. Þessi mikli snjór hefur kostað mikil útgjöld fyrir sveitarfélagið og lætur nærri að kostnaður við snjómokstur sé tvöfalt hærri árið 2012 en áætlað var.
Í síðasta pistli mínum minntist ég á almenningssamgöngur og vonbrigði yfir að þær skyldu ekki ná til okkar sveitarfélags. Það sem ég get sagt á þessari stundu er að það er verið að skoða þessa dagana skipulag á strætóferðum til Grenivíkur og vonandi komast þær á sem fyrst.
Nú er komin nokkur reynsla á nýja gámaplanið. Við þurfum að finna út hvort ástæða er til að breyta opnunartímanum. Margir hafa áhuga á að planið sé opið um helgar. Við vitum að það kostar sitt og ekki verður það tekið af öðru en hækkun á sorpgjöldum.. Kostnaður við sorphirðu fór verulega fram úr áætlun á sl. ári. Að mínu mati kemur það til af þrennu. Í fyrsta lagi er samningur við Gámaþjónustuna miðaður við vísitölu sem miðaður er að hluta við eldneytisverð sem hefur hækkað mikið. Í öðru lagi féll til mikið rusl við alla flutningana í haust og í þriðja lagi hefur gámum fjölgað af ýmsum stærðum og liggur fyrir að endurskipuleggja þarf það mál að mínu mati. Um tíma í vetur vantaði hliðið inn á gámasvæðið. Vöknuðu þá upp gamlir draugar, rusl barst inn á gámasvæðið og því hent í fyrsta gáminn sem var til staðar. Við ætlum seint að læra. Í apríl nk. verður íbúaþing hér í Grýtubakkahreppi. Þá er tilvalið að spjalla um þessi mál og reyna að átta sig á hvaða fyrirkomulag er best og hagkvæmast. Nú er undirrituð að fara í sitt árlega frí og munu Jón Helgi og Guðrún á skrifstofunni annast þau mál sem upp kunnu að koma.
Grenivík í febrúar 2013, Guðný Sverrisdóttir