- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Kæru lesendur.
Þá líður að páskum og vonandi koma sem flestir til með að eiga góða páskahátíð. Síðustu daga hefur mér verið títt litið upp í Grenivíkurfjall til að átta mig á snjóalögum. Við viljum hafa sem minnstan snjó en þegar kemur að því að ekki er hægt að nýta skíðaparadísina okkar vegna snjóleysis kemur annað hljóð í strokkinn. Eins og staðan er í dag eru mestar líkur á því að loka þurfi allri umferð vélknúinna ökutækja upp Grenivíkurfjall vegna snjóleysis því ekki viljum við valda náttúruspjöllum í fjallinu.
Ársreikningur Grýtubakkahrepps fyrir 2003 er nú að líta dagsins ljós. Er afkoman töluvert verri en 2002. Því veldur aðallega viðhaldsverkefni í Gamla skóla og Ægissíðu 21, en þau voru ekki eignfærð. Þegar tekið er tillit til þessa er afkoman svipuð og árið áður.
Þessa dagana standa sveitarstjórn og skólanefnd í stórræðum við val á nýjum skólastjóra og húsverði. Fimm sóttu um stöðu skólastjóra og átján um stöðu húsvarðar. Nú er verið að fara yfir umsóknir og fá umsækjendur í viðtöl. Vonast er til að ráðið verði í stöðurnar fljótlega eftir páska.
Í lok marsmánaðar var grunnskólaþing á Hótel Sögu í Reykjavík sem skólastjórinn og undirrituð sóttu. Yfirskrift þingsins var "Er grunnskólinn kominn yfir til sveitarfélaganna". Að mínu mati erum við enn að flækjast með gamla drauga í skólanum síðan hann var hjá ríkinu. Grunnskólinn er íhaldssöm stofnun og gæti það verið arfleif frá því að hann var hjá ríkinu. Mikils er um vert að allir þ.e. kennarar, foreldrar, skólastjóri, sveitarstjórnarmenn og nemendur rói í sömu átt og jafnframt þurfa allir að vita hver er skipstjórinn. Tími er til kominn að endurskoða grunnskólalögin í samræmi við breytt þjóðfélag. Talandi um skólamál má ekki hjá líða að minnast á skólaskemmtunina. Sett var upp leikritið Emil í Kattholti og var þetta frábær skemmtun í alla staði, ekki síst búningar og söngur. Kærar þakkir fyrir góða skemmtun.
15. apríl nk. verður íbúaþing í Grýtubakkahreppi. Menn staldra eflaust við og vita ekki alveg hvað íbúaþing er, en það er bara gömlu hreppsfundirnir með öðru nafni. Í ár verður fundurinn með hefðbundnu sniði nema hvað félagasamtök í Grýtubakkahreppi koma til með að kynna starfsemi sína.
Hafið það sem best og gleðilega páska.
Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri.