- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Reikna má með að sumir íbúar Grenivíkur séu orðnir langeygðir eftir að hitaveituframkvæmdum ljúki. Reikna má með að hægt verði að tengja hús í sveitarfélaginu um næstu mánaðamót og síðan verður að koma í ljós hvort hægt verður að ljúka við allan frágang nú í haust, þar spila veðurguðirnir inn í. Það sem tefur framkvæmdina m.a. er að margir þurfa og vilja nota hitaveituskurðinn, t.a.m. Rarik og Mílan en Mílan er grunnnet gamla Símans. Grýtubakkahreppur ætlar einnig að nýta sér skurðinn og setja upp nýja ljósastaura við Ægissíðu og í götuna milli Túngötu og Ægissíðu (friðaða svæðið).
Óbyggðanefnd var á ferð í sveitarfélaginu 25. september sl. og aðalmeðferð í málinu fór fram á Akureyri daginn eftir. Reikna má með að úrskurður nefndarinnar liggi fyrir upp úr áramótum. Hvort þjóðlenda er í Grýtubakkahreppi skal ósagt látið á þessari stundu en ef við tökum sem dæmi þá væri það furðulegt ef Grenivíkurjörðin væri dæmd að hluta til sem þjóðlenda þar sem þinglýst landamerkjabréf er til fyrir hana og allir nágrannar skrifa upp á það, en ríkið gerir kröfu í stóran hluta jarðarinnar aðallega vegna þess að búpeningur sveitunganna var þar á sumarbeit. Að mínum dómi tel ég þetta rökleysu.
Grýtubakkahreppur er þátttakandi í lýðheilsuverkefninu ,,Allt hefur áhrif - einkum við sjálf". Meðal markmiða verkefnisins er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og þann 3. október sl. var bíllaus dagur í sveitarfélaginu. Margir skildu bílinn eftir heima og gengu í vinnuna, í skólann og á milli staða. Það er gamall vani að setjast upp í bílinn þótt farin sé stutt leið. Hér með skora ég á sjálfa mig og aðra að setjast ekki upp í bílinn nema brýna nauðsyn beri til. Við höfum öll þörf fyrir hreyfingu og ef við göngum í vinnuna og á milli staða er jafnvel síður þörf á tímum í líkamsrækt eftir vinnu.
Nú er veglagningu upp á Grenjárdal, svokölluðum Kaldbaksvegi, lokið. Vegurinn nær upp í yfir 400 m hæð. Þeir sem hafa borið kostnað af verkefninu er Vegagerðin, KEA, snjósleðamenn við Eyjafjörð og Grýtubakkahreppur. Það er vel þess virði að ganga eða aka upp á dalinn í haustkyrrðinni og virða fyrir sé fegurð Eyjafjarðar.
Grenivík í október 2007, Guðný Sverrisdóttir