- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Fátt er um meira spjallað í þjóðfélaginu þessa dagana en efnahagsástandið og þær hörmungar sem dynja yfir íslenska þjóð og heimsbyggðina alla. Í pistli mínum í ágúst talaði ég um sjö góðæri og sjö hallæri og það væri ekki háttur okkar Íslendinga að safna til mögru áranna. Á þeim tímapunkti hafði ég þó ekki hugmyndaflug til að ímynda mér að við værum svo djúpt sokkin sem raun ber vitni og við hefðum flotið sofandi að feigðarósi. Oft höfum við Íslendingar sagt að þetta reddist og vissulega verðum við að vona að eitthvað reddist þótt það sé gefið mál að margir fara illa út úr kreppunni.
Hafin er vinna við fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps 2009. Víst er að erfitt verður að koma henni saman. Ef ekki verður gjaldþrot og atvinnuleysi í sveitarfélaginu þarf ekki að reikna með að útsvarstekjur minnki mikið en víst er að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga koma til með að dragast saman því tekjur hans eru hlutfall af tekjum ríkissjóðs. Því má reikna með að fjárhagsáætlunin verði niðurskurðaráætlun. Freista þarf þess þó að halda uppi verklegum framkvæmdum ef einhver kostur er svo hjól atvinnulífsins stöðvist ekki.
Þann 3. október sl. var haldið upp á 10 ára afmæli Grenilundar. Það var skemmtileg afmælisveisla og afmælisbarninu og þeim sem þar starfa til sóma. Ánægjulegt var að sjá hvernig starf ungra og aldraðra var tengt saman Mörg stærri heimili og ráðamenn öldrunarmála á Íslandi gætu lært af þeirri vinnu sem fram fer á þessarri litlu stofnun sem sumum sem ráða ferðinni finnst vera á mörkunum að eigi rétt á sér.
Síðastliðinn mánudag voru kynntar niðurstöður úr könnun Lýðheilsustöðvar í verkefninu „Allt hefur áhrif einkum við sjálf". Könnunin náði til leik- og grunnskóla. Til að gera langt mál stutt þá komu skólarnir okkar frábærlega út úr könnuninni ekki síst hvað varðar mötuneyti og hreyfingu barnanna.
Með von um að við höldum áfram að vera jákvæð þótt á móti blási.
Grenivík í október 2008, Guðný Sverrisdóttir.