- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Við höfum nú verið rækilega minnt á það að við erum órjúfanlega tengd umheiminum. Eitt smit hefur nú verið staðfest á Grenivík. Viðkomandi hefur verið í sjálfskipaðri sóttkví og ekki er talið á þessu stigi að hætta sé á að smit hafi dreift sér. Viðkomandi er nú í einangrun og einungis einn annar er í sóttkví vegna smitsins en grannt er fylgst með málinu áfram af heilbrigðiskerfinu okkar. Við leggjum okkar traust á sérfræðingana og allir eru hvattir til að fara að tilmælum um umgengni og að virða fjarlægðarmörk þar sem við á.
Sveitarfélagið hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða sem allar miða að tveimur markmiðum. Annars vegar að lágmarka áhættu fyrir þá sem eru viðkvæmastir fyrir, hins vegar að því að hægja á ferli covid-19 veirunnar og minnka þannig líkur á að samfélagið okkar lamist á einu bretti. Í gær olli t.d. eitt smit í Húnaþingi Vestra því, að 230 manns eru komin í sóttkví.
Eftirfarandi er yfirlit yfir aðgerðir okkar og stöðu mála:
2. mars var farið að tempra heimsóknir á Grenilund og 7. mars var sett á heimsóknarbann. Jafnframt hefur umgengni starfsfólks verið breytt, vinnureglur uppfærðar og starfið endurskipulagt. Nú er verið að skipta starfsfólki upp í tvo hópa sem eiga að haldast aðskildir eftir því sem hægt er. Það er til að reyna að koma í veg fyrir að allt starfsfólk heimilisins lendi í sóttkví á sama tíma.
Hér til hliðar er auglýsing frá Grenilundi eftir fólki í bakvarðarsveit til að vera til taks þegar kallið kemur.
Í byrjun vikunnar var sett á samkomubann á landinu með víðtækum áhrifum, m.a. á skólahald. Það veldur verulegri röskun á starfi grunnskólans en minni hjá leikskólanum. Aðgerðaáætlun sveitarfélagsins var einnig uppfærð og staðfest um síðustu helgi.
Breytt aðgengi að Íþróttamiðstöð tók gildi og er það í nánast daglegri endurskoðun eins og allar aðrar aðgerðir, aðstæður breytast dag frá degi.
Frá og með deginum í dag er skrifstofa hreppsins lokuð fyrir utanaðakomandi umferð. Erindum er beint í gegnum síma, 414 5400, eða tölvupóst;
Þröstur Friðfinnsson sveitarstjori@grenivik.is
Guðrún Kristjánsdóttir gudrun@grenivik.is
Sigríður Pálrún Stefánsdóttir pala@grenivik.is
Margar spurningar brenna á fólki, svör við mjög mörgum er að finna á síðunni www.covid.is og eru íbúar hvattir til að nýta sér hana.
Í Grunnskóla er hópaskipt og hópum haldið aðskildum í skólastarfinu. Eftir skóla rofnar aðskilnaður í sumum tilvikum, enda annað ekki framkvæmanlegt. Það er síðan á valdi foreldra hve langt þau vilja ganga í að tempra samgang og hópleiki barna, slíkt verður ekki stöðvað. Einungis er bent á, að því minni samgangur, því minni áhrif þegar smit kemur upp. Með því að fækka í þeim hópi sem þarf að loka sig af í sóttkví hverju sinni, aukum við líkur á að geta haldið samfélaginu gangandi sem lengst og með sem minnstum takmörkunum á þjónustu við íbúana. Ekkert er þó í hendi og við verðum að vera búin undir frekari lokanir.
Fyrir alla sem eru órólegir og hafa ekki aðgang að vinum eða ættingum til að ræða málin er rétt að benda á hjálparsíma Rauða krossins 1717.
Mikilvægt er að halda ró sinni og halda áfram að lifa, fara út og hreyfa sig og í heimi snjalltækja er auðvelt að eiga samskipti við marga án þess að koma saman. Gleymum ekki gleðinni og húmornum, allt gengur þetta yfir með tíð og tíma.
Við viljum þakka íbúum fyrir þeirra framlag og þolinmæði. Ekki síður starfsfólki okkar sem hefur tekið aðstæðum af yfirvegun og leggur sig gríðarlega vel fram við þessar aðstæður. Er opið fyrir nýjum vinnubrögðum og sveigir til sitt líf og starf á ýmsa lund.
Allt er þetta mikið álag, við eigum von á að næstu vikur, kannski mánuðir, muni reyna verulega á. Við sendum hlýjar kveður til þeirra sem eru og eiga eftir að vera í sóttkví. Ekki síður hugsum við öll til þeirra sem hafa veikst og eiga eftir að veikjast og óskum að þeir megi aftur ná fullri heilsu sem fyrst. Við stöndum saman og komum vonandi sterk út úr þessu þegar snjóa leysir og sólin verður hæst á lofti. Sýnum æðruleysi og skilning, hlúum að hvert öðru og sjálfum okkur.
Sveitarstjóri