- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Í lok árs 2024 afhenti Kvenfélagið Hlín, Grenivíkurskóla, leikskólanum Krummafæti og Kontornum, hjálparbúnaðinn LifeVac. Búnaðurinn er sérhannað lækningatæki til að losa aðskotahluti úr öndunarvegi hjá bæði fullorðnum og börnum.
Markmið félagsins er meðal annars að styðja við og styrkja starfsemi með það að leiðarljósi að íbúar hreppsins njóti góðs af á einn veg eða annan. Undanfarin ár hefur kvenfélagið því keypt inn búnað og styrkt hin ýmsu málefni. Má þar nefna hjartastuðtæki fyrir Magna, búnað í sjúkraþjálfun, búnað fyrir Kristnes, sundleikföng fyrir sundlaugina, þroskaleikföng fyrir leikskólann, flutningsdýnu fyrir björgunarsveitina, rápmottu fyrir Grenilund og svona má lengi áfram telja. Þar að auki hefur kvenfélagið staðið fyrir söfnunum þar sem fjármunir hafa runnið til einstaklinga og fjölskyldna sem hafa gengið í gegnum erfiðleika og/eða veikindi.
Það eru rúmlega fjörtíu öflugar konur sem keyra kvenfélagið áfram með sjálfboðaliðavinnu. Þessar konur halda utan um fjáraflanir og samkomur á vegum félagsins, skipuleggja og leggja ómældan tíma og vinnu í hin ýmsu verkefni sem koma inná borð til okkar. Til gamans má í framhaldinu geta þess að áætlaðar vinnustundir sem konurnar lögðu í verkefni ársins 2024 voru rúmlega 500 klst og má frekar gera ráð fyrir að þetta sé vanáætlað en of.
En þá kemur að megintilgangi þessarar fréttar og það er að þakka ykkur íbúum Grýtubakkahrepps fyrir það sem þið gerið því það sem við gerum væri ekki hægt að gera án ykkar. Þátttaka ykkar í fjáröflunum og samkomum á okkar vegum er það sem gerir félaginu kleift að safna saman fjármunum sem eru svo settir áfram í hin ýmsu verkefni. Það eruð þið sem eruð að kaupa allan þennan búnað og styrkja þá sem á þurfa að halda á erfiðum tímum.
Við þökkum ykkur því kærlega fyrir gott samstarf og þátttöku á undanförunum árum og vonum að þetta fallega stækkandi samfélag sem við búum í haldi áfram að láta náungann skipta sig máli.
Kveðja Kvenfélagið Hlín