Þróun samfélags

Framtíðarsnillingarnir okkar
Framtíðarsnillingarnir okkar

Ágætir þættir um Vigdísi eru afhjúpandi um þróun samfélagsins. Þó maður þykist ekki orðinn afgamall, er hálfgert áfall að fá tímana sem maður ólst upp við, svona harkalega í andlitið. Ég man þegar sími kom á æskuheimilið, manni finnst ótrúleg fjarlægð til snjallsíma nútímans, þó svo stutt í huganum. Eftirminnilegt er þegar sjónvarpið hóf göngu sína. Einnig þegar við nemendur og kennarar á Bifröst slógum saman í kaup á fyrstu tölvunni sem kom á staðinn 1978. Það var Commodore með 8Kb minni!

Eitt eru tæknibreytingar, þær eru okkur almennt til hagsbóta í dagsins önn. Hitt eru breytingar á viðhorfum. Afar ánægjulegt er hve réttur fólks í samfélaginu hefur jafnast og ekki lengur fréttnæmt að konur séu í valdastöðum, ekki heldur samkynhneigðir. Þó er allskonar titringur og bakslög, en í heildina miðar okkur vonandi enn fram á veg. Áhrif Vigdísar Finnbogadóttur á samfélagsþróun síðustu áratuga verða síðan beinlínis áþreifanleg við áhorf á þættina.

Í þáttunum um Vigdísi sást glöggt hvernig agi og foreldravald var hér áður, það hefur tekið stakkaskiptum og vonandi að mestu til bóta. Í seinni tíð hafa ungmennin okkar haft mikið frelsi og mörg ná að nýta sér það til að hámarka sína getu, hvort heldur er í námi, listum eða íþróttum svo dæmi séu tekin. Öllu má samt ofgera og það er mikið áhyggjuefni hve vanlíðan er algeng meðal ungmenna. Svartsýni á framtíðina og vonleysi sem getur í verstu tilfellum verið lífshættulegt.

Það er því ástæða til að staldra við og íhuga hlutverk foreldra sérstaklega. Börn búa við mikið áreiti af samfélagsmiðlum og stöðugan straum af hörmungafréttum. Heimsendaspár hafa fylgt mannkyni og engin undantekning á okkar tímum. Nú er það loftslagsvá, áður var það t.d. kjarnorkuvá, eyðing ósonlags og fleira sem var ungmennum ógn á viðkvæmum aldri. Það reynir á foreldra að útskýra að fréttir eru kannski ýktar og að jörðin hefur borið og framfleytt lífi í þúsundir og milljónir ára. Ekki eru miklar líkur á að á því verði stökkbreytingar á einni mannsævi.

Þó agi hafi verið of mikill hér áður, er algert frelsi og agaleysi ávísun á vanlíðan og óöryggi. Veldur árekstrum við umhverfi og samfélag sem aftur eykur vanlíðan þegar skömm bætist við. Samfélagið verður að vinna saman að því að þróa sig áfram, en stundum getur þurft að taka eitt skref til baka. Við höfum sem lítið samfélag, gríðar sterka stöðu til þess að grípa og hjálpa hverjum einstaklingi sem ráfar af leið og á í vandræðum með að finna sjálfan sig í róti heimsins. Þá skiptir sköpum að foreldrar og skóli séu samstíga og hjálpist að. Ef foreldrar sinna ekki sínu hlutverki, er skólinn afar vanmáttugur, þó hann sé skipaður úrvals fólki.

Vanlíðan barna brýst út með ýmsum hætti. Við sjáum okkar ungmenni, sem við teljum þó efnileg og hæfileikarík, sýna hegðun sem er óásættanleg. Áreita útlendinga, bæði gesti og þá sem hér búa, sýna eignum vanvirðingu, lúta ekki leiðbeiningum og aga í skóla. Hér verða foreldar að grípa inn í. Setjast niður með sínum börnum og ræða málin, ekki í eitt skipti, heldur reglulega. Finna hjartslátt og andlega líðan sinna barna. Ræða áskoranir lífsins og reyna eftir fremsta megni að vekja með þeim bjarsýni og trú á lífið. Kenna þeim virðingu fyrir reglum, fyrir eignum og fyrir lífi. Að sjá fegurðina í náttúrunni, í umhverfinu, og í fjölbreytileika mannlífsins.

Á sama hátt verður að ætlast til að fullorðna fólkið standi undir því að vera góðar fyrirmyndir. Í okkar samfélagi sem við erum svo stolt af, þrífst þó ýmis óvirðing fyrir lögum og reglum. Hundar eru lausir úti þó reglur banni það, sem getur auðveldlega skapað hættu auk ónæðis. Einnig fá þeir of margir að skilja eftir sín stykki út um þorpið, íbúum og gestum til ama. Akstur ýmissa tækja um þorpið er á skjön við lög og veldur íbúum og gestum óþarfa ónæði. Á það bæði við um hvar má aka hverju tæki og reglur um aldur ökumanna. Það vill gleymast að ef slys verður, er hver ábyrgur fyrir sínu og trygging fellur niður ef ekki er eftir lögum farið. Hraðakstur í þorpinu er einnig vandamál sem við þurfum að taka á, undirritaður ekki undanskilinn þar.

Nú í upphafi árs, er gott að allir íhugi sína stöðu og hlutverk. Við eigum yndislegan stað, fallega náttúru og samheldið og sterkt samfélag. Með samstilltu átaki getum við vel bætt úr þeim brestum sem hér hafa verið nefndir. Annars er hætta á að þeir stækki eins og skemmd í tönn og geti endað með sársauka og jafnvel óbærilegu tjóni.

Sveitarfélagið hefur á að skipa úrvals starfsfólki sem reynir að sinna sínu alla daga, hvort sem er kennsla, umönnun eða snjómokstur svo eitthvað sé nefnt. Við þurfum nú öll að líta í eigin barm, er ég úrvals foreldri, bílstjóri, já hvernig get ég bætt mig svo að ég verði úrvals íbúi? Þannig getum við öll saman snúið ofan af slæmri þróun og séð samfélagið okkar þróast áfram í rétta átt svo að til fyrirmyndar megi vera til framtíðar.

Gleðilegt ár!

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri