Fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps 2024- 2027

Sveitarstjórn staðfesti á fundi sínum 11. desember 2023, fjárhagsáætlun fyrir árin 2024 – 2027.  Reksturinn verður áfram með óbreyttu sniði en tekjur eru að aukast jafnt og þétt þessi árin.  Gert er ráð fyrir tekjuafgangi af samstæðu A og B hluta upp á 35 millj.kr. á árinu 2024.  Það er nokkur bati frá síðustu árum, en einnig má geta þess að nýleg útkomuspá fyrir árið 2023 gerir ráð fyrir tekjuafgangi upp á 24,2 millj.kr. en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 10,7 millj.kr.  Er þessi jákvæða þróun í takt við þær væntingar sem við höfum haft síðustu misserin og ánægjulegt að þær séu að ganga eftir.

Fjárhagsstaða Grýtubakkahrepps er því áfram afar traust, skuldir mjög hóflegar og munu fara lækkandi næstu árin þrátt fyrir töluverðar fjárfestingar.  Á árinu 2024 er áætlað að eignfærð fjárfesting brúttó nemi 61,1 mkr.  Helstu liðir eru að lokið verður við lengingu Lækjarvalla, þ.e. hlutann sem byrjað var á í haust, einnig verður lokið við skólalóð og áformað er að klára ledvæðingu ljósastaura á Grenivík.  Viðhaldsverkefni eru þó nokkur fyrirliggjandi og á næsta ári verður byrjað að endurnýja glugga í skólanum og þakkantur hans verður smíðaður upp.  Auk þess eru ýmis smærri verkefni.  Ekki er áformuð lántaka vegna framkvæmda og ekki hefur heldur verið tekið lán á þessu ári.

Á árinu sem er að ljúka voru umtalsverðar framkvæmdir á vegum hreppsins, en helstu fjárfestingar voru þessar:  Lokið var við fyrri áfanga lengingar Lækjarvalla, endunýjun á skólalóð og leikskólalóð.  Þakrennur á Grenilundi voru endurnýjaðar og upphituð stétt steypt við gafl og baka til.  Gamli Skóli var málaður að utan sem og þaki.  Keypt voru borð og stólar í matsal Grenivíkurskóla og með viðbót sem kemur núna í byrjun næsta árs verðum við sjálfum okkur nóg við samkomur s.s. þorrablót.  Ledvæðing ljósastaura var hafin og aukið var við tækjabúnað Slökkviliðs Grýtubakkahreppps.  Síðast en ekki síst er væntanleg núna fyrir áramótin ný og öflug dráttarvél, Valtra T235d, sem leysir grænu vélina af hólmi.  Hún er ýmsum góðum kostum búin, m.a. svokölluðum bakkkeyrslubúnaði en þá er sæti vélarinnar snúið við sem nýtist mjög vel t.d. við snjómokstur.  Er þá hægt að vinna með tönn að framan en snjóblásara að aftan jöfnum höndum.  Munnlegt samkomulag er um sölu grænu vélarinnar og verður hún afhent í janúar þegar sú nýja er komin í gagnið.

Þá má nefna framkvæmdir á vegum einkaaðila, t.d. nýtt verksmiðjuhús Pharmarctica, bensínstöð N1 var endurnýjuð og færð til á lóðinni þannig að verulega rýmkast um aðgengi að húsinu Grýtu og bílastæðum er fjölgað sem nýtist t.d. veitingahúsinu Kontornum.  Áfram heldur bygging hótelsins og verður það væntanlega fullbúið síðla næsta árs.  Flutt er inn í fyrstu íbúðirnar í raðhúsinu við Höfðagötu og bygging hafin á raðhúsi við Lækjarvelli auk nokkurra einbýlishúsa.

Íbúafjöldi 1. desember 2023 var orðinn 403 og fjölgaði um 5,8% síðustu 12 mánuði.  Það er ánægjuleg þróun sem við væntum að haldi áfram næstu árin. 

Gjaldskrár Grýtubakkahrepps hækka almennt um 4% 1. janúar 2024.  Er það verulega undir verðlagsþróun.  Vistunargjöld í leikskóla hækka þó ekki, en þau hafa nú verið óbreytt síðan 1. janúar 2016.  Er það umtalsverð raunlækkun á tímabilinu og fylgir fram stefnu sveitarstjórnar um fjölskylduvænt samfélag. Sorphirðugjöld hækka um 20% og dugar þó ekki til, áfram verður einhver halli af málaflokknum.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunar eru þessar:

  • Miðað er við að sveitarfélagið verði með svipaðan rekstur næstu ár og verið hefur og veiti sambærilega þjónustu áfram.
  • 2024 er áætlað miðað við fyrirliggjandi gögn, t.d. kjarasamninga og áætlanir frá Fjársýslu ríkisins, HMS og Jöfnunarsjóði.
  • Áætlun 2025 – 2027 gerir ráð fyrir 3% verðlagshækkun á ári og samsvarandi hækkun á bæði tekjur og gjöld.
  • Fjárfestingaáætlun tímabilsins, sem og áætlun um sölu eigna, er reiknuð inn í áætlun og hefur áhrif á t.d. afskriftir og fjármagnsliði, en ekki er þó gert ráð fyrir væntum söluhagnaði af seldum eignum í áætlun tekna (nema 2024 í tilviki grænu vélarinnar sem er þekkt stærð).
  • Veruleg uppbygging er í gangi á Grenivík, bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæðis.  Reikna má með bæði fjölgun íbúa og auknum skatttekjum næstu árin vegna þessarar uppbyggingar, ekki er þó tekið tillit til þess í tekjuáætlun umfram það sem þegar er komið fram, áætlanagerðin er því hófstillt að þessu leyti.

Fjárhagsáætlun áranna 2024 – 2027 í heild er að finna í þessu skjali