- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Sveitarstjórn staðfesti á fundi sínum 9. desember 2024, fjárhagsáætlun fyrir árin 2025 – 2028. Reksturinn verður áfram með óbreyttu sniði en tekjur eru að aukast jafnt og þétt þessi árin. Gert er ráð fyrir tekjuafgangi af samstæðu A og B hluta upp á 22 millj.kr. á árinu 2025. Ný útkomuspá fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir tekjuafgangi upp á 20 millj.kr. en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 35 millj.kr. Breytingin fellst í meiri hækkunum vegna kjarasamninga en áætlað var, en þó er endanleg niðurstaða enn háð nokkurri óvissu um suma tekjuliði.
Fjárhagsstaða Grýtubakkahrepps er áfram afar traust, skuldir mjög hóflegar og munu fara lækkandi næstu árin þrátt fyrir töluverðar fjárfestingar. Á árinu 2025 er áætlað að eignfærð fjárfesting brúttó nemi 65,9 mkr. Helstu liðir eru að lokið verður við lengingu Lækjarvalla, malbikun og frágang sem frestað var í ár. Viðhaldsverkefni eru þó nokkur fyrirliggjandi, áfram verður haldið með gluggaskipti í skólanum næsta sumar og áformað að klára gluggaskipti að fullu árið 2026. Ráðast á í endurnýjun þaks á íþróttahúsi og auk þess eru ýmis smærri verkefni. Ekki er áformuð lántaka vegna framkvæmda og ekki hefur heldur verið tekið fjárfestingalán á þessu ári.
Á árinu sem er að ljúka voru umtalsverðar framkvæmdir á vegum hreppsins, en helstu fjárfestingar voru þessar: Lokið við endurnýjun skólalóðar, fyrsti áfangi í gluggaskiptum í skólanum, lokið við ledvæðigu ljósastaura og segja má að við það hafi birt í þorpinu. Ekki síður birti í matsal Grenivíkurskóla þegar gluggar voru stækkaðir og einig komu gluggar í nýja tvöfalda hurð að austan. Þakkantur var endurnýjaður á skólanum og steypt var ný þekja á Gömlu bryggju sem ekki var vanþörf á. Þá hefur verið settur niður dælubrunnur á stofn vatnsveitunnar og verður dælan tengd stjórnbúnaði á næstu vikum. Með því á að tryggja að þrýstingur á kalda vatninu verði jafnan í lagi, einnig við mikla notkun t.d. við slökkvistörf.
Íbúafjöldi 1. desember 2024 var orðinn 404 og fjölgaði um 1 íbúa síðustu 12 mánuði. Væntum við meiri fjölgunar á næstu árum en nú eru líklega 16 íbúðir í byggingu á Grenivík og vonandi klárast sem flestar á næsta ári og fyllast af nýjum íbúum.
Gjaldskrár Grýtubakkahrepps hækka almennt um 3,5% 1. janúar 2025. Vistunargjöld í leikskóla hækka þó ekki, en þau hafa nú verið óbreytt síðan 1. janúar 2016. Leikskólagjöld eru nú orðin mjög lág í samanburði við önnur sveitarfélög, sem fylgir fram stefnu sveitarstjórnar um fjölskylduvænt samfélag. Sorphirðu- og úrgangsgjöld hækka um 10 - 30% og dugar þó líklega ekki til, áfram verður trúlega einhver halli af málaflokknum.
Helstu forsendur fjárhagsáætlunar eru þessar:
Fjárhagsáætlun áranna 2025 – 2028 í heild er að finna í þessu skjali.