- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
6. fundur atvinnu- og þróunarnefndar Grýtubakkahrepps, haldinn í Gamla skólanum 4. maí 2011.
Fundurinn hófst kl. 17:00.
Mættir: Sigurður, Benedikt, Oddý, Bára, Birna, Guðni og Valgerður. Sveitarstjóri mætti á fundinn kl. 17:45 vegna aðalfundar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem haldinn var á Grenivík.
1. Afgreiðslu fundargerðar síðasta fundar frestað.
2. Vefsíðan.
Bára og Benni gerðu grein fyrir þeirri vinnu sem farið hafði fram frá síðasta fundi af þeirra hálfu. Tvö tilboð höfðu borist um þjónustu við síðuna. Annars vegar frá þeim sem skipt hefur verið við fram til þessa og býður hann upp á svokallað Joomla-kerfi. Hitt tilboðið frá fyrirtækinu Stefnu, sem býður upp á svokallað Moya-kerfi. (Sjá fylgiskjöl)
Niðurstaða nefndarinnar var sú að leggja til við sveitarstjórn að gengið verið til samninga við Heiðar Sigurðsson um að skipt verði yfir í Joomla og viðskiptum haldið áfram við hann.
3. Möguleikar á frekari nýtingu á Jónsabúðarbyggingunni.
Valgerður gerði grein fyrir fundi sem Sigurður og hún höfðu átt með Jón Ingólfssyni, rekstraraðila Jónsabúðar með það fyrir augum að nýta betur bygginguna sem verslunin og fleiri aðilar á svæðinu leigja.
Fram kom að byggingin er um 500 fermetrar alls og mætti nýtast mun betur. Húsið er sjálfberandi og gefur því mikla möguleika hvað varðar innréttingar. Eigandi er fasteignafélagið Reitir. Jón hafði nýlega látið fasteignasala meta hugsanlegt kaupverð á byggingunni og er það sagt yfir 30 milljónir króna. Jónsabúð greiðir 195 þúsund í leigu á mánuði. Versluninni er þröngur stakkur skorinn og kom fram hjá Jóni að hann hafi ekki áhuga á að taka mikla áhættu í sambandi við þann rekstur sem hann hefur með höndum í dag en hefði gjarnan vilja minnka við sig í húsnæði. Hann sagðist vera til viðræðu um breytingar. Það var niðurstaða nefndarinnar að vinna að þessu máli frekar og móta frekari útfærslur um hugmyndina á næstu mánuðum.
Nefndin var sammála um að mjög mikilvægt væri að koma upp upplýsingarmiðstöð í þorpinu fyrir sumarið og hefur vilyrði fyrir þeirri aðstöðu í Jónsabúð. Beinir nefndin því til sveitarstjórnar að ganga til samninga við rekstraraðila Jónsabúðar um að sett verði upp upplýsingaskilti utan á húsið og að inni í húsnæði veitingasölunnar verði sett loftmynd af skaganum (milli Eyjafjarðar og Skjálfandi) þar sem merkt verði inn á áhugaverðir staðir fyrir ferðamenn. Ennfremur að mappa liggi frammi um þjónustuaðila í hreppnum, sem verði á 3 tungumálum. Nefndin lítur á þessa ráðstöfun sem hugsanlegt fyrsta skref í frekari nýtingu byggingarinnar.
4. Fram kom hjá sveitarstjóra að Hamraborgin sé laus til leigu og verði óskað eftir aðilum til rekstrar. Ennfremur kom fram að líkur séu á að húsnæðið að Miðgörðum sé laust til leigu. Þetta rými væri áhugavert fyrir handverksfólk og var ákveðið að sveitarstjóri sendi út dreifibréf þar sem þessu yrði komið á framfæri.
5. Fundi slitið kl. 18:10 og næsti fundur ákveðinn 25. maí.