10.06.2015 00:00
Fundur Landbúnaðarnefndar
Haldinn í Höfða 10. júní, kl. 21.00
Fundur Landbúnaðarnefndar Grýtubakkahrepps. Mætt Ásta F. Flosadóttir, Guðjón Þórsteinsson og Margrét Melstað.
Dagskrá:
- Verkaskipting nefndarinnar.
Ákveðið að Ásta verði formaður, Margrét ritari og Guðjón meðstjórnandi.
- Landbótaáætlun fyrir afrétt Grýtubakkahrepps. Landbótaáætlun var send til Landgræðslunnar í október og yfirfarin eftir athugasemdir frá Landgræðslunni. Síðan var endanleg áætlun send um áramótin og svar hefur ekki borist, þannig að áætlunin hefur hvorki verið samþykkt né hafnað.
- Opnun afréttar og ógirtra heimalanda. Nefndin fór í leiðangur á Látraströnd að kanna gróðurfar. Græn eru orðin tún á Hringsdal og Svínárnesi, úthagi allur að lifna og sumstaðar orðinn gróinn. Landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimilt verði að sleppa fé í ógirt heimalönd og á afrétt þann 15. júní, en heimilað verði að sleppa geldfé 12. júní.
Það er mat nefndarinnar að menn hafi samráð sín á milli um sleppingar og taki mið af gróðri og veðurfari áður en fé er sleppt.
- Hrossabeit. Lagt er til að hrossum sé ekki sleppt á afrétt fyrr en 1. júlí og beitartíminn verði 60 dagar sem samræmist Landbótaáætluninni.
- Fjárréttin. Nú er komið á áætlun fyrir árið 2016 að fara í byggingu nýrrar fjárréttar. Ákveðið að formaður nefndar hafi samband við landeigendur á Grýtubakka, á Bárðartjörn og í Réttarholti og leiti eftir landi fyrir rétt og næturhólfi/safnhólfi við réttina. Ákveðið að formaður athugi með teikningar að nýrri rétt.
- Brýr og vegur í Fjörðum. Huga þarf að ástandi brúa í Fjörðum og endurnýja vegstikur á veginum út í Gil. Nauðsynlegt er að útbúa almennilegt vað yfir Grenjánna, þar sem brúin er ónýt.
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.
Margrét Melstað ritaði fundargerð.