- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Fundur hjá Fræðslu- og æskulýðsnefnd 10.4.2007.
Málefni Grenivíkurskóla.
Mættir voru Ásta F. Flosadóttir, Benedikt Sveinsson, Margrét Ösp Stefánsdóttir, Jón Helgi Pétursson og Þorsteinn Friðriksson. Einnig mættu Valdimar Víðisson skólastjóri, Sigríður Sverrisdóttir áheyrnarfulltrúi kennara og Anna Bára Bergvinsdóttir áheyrnarfulltrúi foreldra. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarstjóra og hófst kl. 17:00. Gjörðir fundarins voru eftirfarandi:
1. Starfið í vetur.
Formaður setti fund og gaf skólastjóra orðið. Skólastjóri skýrði frá því að starf vetrarins í skólanum hafi gengið vel, bæði hvað varðar almennt skólastarf sem og sérstök verkefni s.s. Grænfánaverkefnið og Lýðheilsustöðvarverkefnið. Einnig kom fram að um næstu helgi mun Hugó Þórisson, sálfræðingur, halda erindi fyrir foreldra/forráðamenn annars vegar og unglinga hins vegar um tölvunotkun barna og unglinga.
2. Starfsmannamál.
Skólastjóri skýrði frá því að Sigríður Elín Þórðardóttir muni láta af störfum í vor þar sem hún er á leið í nám næsta haust. Skólastjóri hefur þegar hafið leit að eftirmanni hennar. Kjartan Ólafsson, íþróttakennari, mun einnig láta af störfum í vor. Búið er að auglýsa stöðuna og hefur ein umsókn þegar borist. Tveir starfsmenn, sem ráðnir voru til eins árs, munu sömuleiðis láta af störfum í vor. Þrír kennarar, sem áður störfuðu við skólann, munu koma á ný til starfa og fylla þar með kennarastöðurnar að frátalinni stöðu íþróttakennara. Fræðslu- og æskulýðsnefnd samþykkir að skólastjóri gangi frá ráðningum í þær stöður sem losnað hafa.
3. Næsta skólaár, nemendafjöldi og fyrirkomulag kennslu.
Skólastjóri skýrði frá því að nemendur næsta skólaárs verði að öllum líkindum 64 og er stefnt á að kenna í 6 námshópum. 1. bekkur sér, 2. og 3. bekkur saman, 4. bekkur sér, 5. og 6. bekkur saman, 7. og 8. bekkur saman, 9. og 10. bekkur saman. Kennslustundir á viku verða 220, fyrir utan stuðningskennslu, og stöðugildi við kennslu 9 talsins. Jafnframt lagði skólastjóri fram yfirlit yfir stöðugildi kennara á komandi skólaári. Fræðslu- og æskulýðsnefnd lýsir sig fylgjandi framkomnu fyrirkomulagi vegna kennslu á komandi skólaári
4. Skóladagatal.
Skólastjóri lagði fram skóladagatal fyrir komandi skólaár. Eftir er að leggja dagatalið fyrir foreldraráð og kennara skólans. Skóladagatalið gerir ráð fyrir 180 skóladögum og gerir Fræðslu- og æskulýðsnefnd ekki athugasemdir við dagatalið.
5. Skólastjóri skýrði frá því að hann muni fara í fæðingarorlof fljótlega og mun Hólmfríður Björnsdóttir taka við hluta af verkum skólastjóra meðan hann er í orlofi.
Fleira var ekki tekið fyrir, samþykkt að fundarritari gangi frá fundargerð og hún send í tölvupósti til samþykkis nefndarmanna. Fundi slitið kl. 18:15. Fundargerð samþykkt með tölvupósti.