- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Fundur Fræðslu- og æskulýðsnefndar 13. des. 2007
Mættir voru nefndarmennirnir Ásta F. Flosadóttir, Margrét Ösp Stefánsdóttir og Jón Helgi Pétursson. Þorsteinn Friðriksson og Benedikt Sveinsson boðuðu forföll. Í þeirra stað sat Stefanie Lohman. Einnig sátu fundinn Valdimar Víðisson skólastjóri, Hólmfríður Hermannsdóttir leikskólastjóri, Inga María Sigurbjörnsdóttir fulltrúi grunnskólakennara og Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri. Margrét Ósk Hermannsdóttir fulltrúi starfsfólks leikskóla og Oddný Jóhannsdóttir fulltrúi leikskólabarna boðuðu forföll og ekki náðist að boða varamenn.
Fundurinn var haldinn í Gamla skóla kl. 20:00 og voru gjörðir fundarins eftirfarandi:
Sameiginlegur fundur:
1. Frumvörp til laga um leik- og grunnskóla.
Samband íslenskra sveitarfélaga óskar eftir umsögn um frumvörp til laga um leik- og grunnskóla. Farið var yfir drögin og einstök atriði rædd. Samþykkt var að skólastjórar beggja skólastiganna geri stutta samantekt á helstu atriðum og sendi formanni nefndarinnar sem sendir þau áfram til annarra nefndarmanna og áheyrendafulltrúa. Umræðunni verði svo haldið áfram á næsta fundi.
2. Skólastefna Grýtubakkahrepps.
Eins og fram kom á síðasta fundi er áhugi fyrir að hafa sameiginlega skólastefnu fyrir bæði skólastigin í Grýtubakkahreppi og samþykkt var að hefja undirbúning á gerð slíkrar stefnu. Ásta mun skoða hvernig skólastefnur annarra sveitarfélaga líta út og senda öðrum nefndarmönnum, skólastjórarnir munu tína til efni sem nú þegar er hluti af þeirra áherslum í starfinu og vinnan heldur svo áfram á næsta fundi.
3. Kristni í skólastarfi -
Bréf frá Menntamálaráðuneytinu um fermingafræðslu í grunnskólum. Vegna orðabreytingar í nýju frumvarpi til laga um grunnskóla var þetta málefni sérstaklega tekið fyrir og rætt. Einnig barst nefndinni bréf frá Menntamálaráðuneytinu varðandi það að fermingarfræðsla ætti að fara fram utan skólatíma og að skóli mætti ekki gefa nemendum frí til að fara í fermingarfræðsluferð. Þessi mál voru rædd ítarlega og ljóst er að meiningamunur nefndarmanna er nokkur, enda uppi ólík sjónarmið í samfélaginu öllu. Skólastjóri grunnskólans fór yfir fyrirkomulag fermingarfræðslu og kirkjuskóla, en ljóst er að þessi uppfræðsla þjóðkirkjunnar er hér í fullu samræmi við umrætt bréf Menntamálaráðuneytisins, þar sem hvorki fermingarfræðslan né kirkjuskólinn fara fram á skólatíma barnanna og skyldumæting í hvorugt. Rætt var um aðkomu prests að litlu jólum í leik- og grunnskólanum.
4. Fæðiskostnaður skóla- og leikskólabarna.
Staða lýðheilsuverkefnisins í mötuneytunum. Fæðiskostnaður í Krummafæti er ívið hærri en á Akureyri en á því eru eðlilegar skýringar, m.a. smæð leikskólans. Fæðiskostnaður í Grenivíkurskóla er með því lægsta sem fyrirfinnst á landinu. Hvert barn borgar 27.900 kr. á ársgrundvelli. Fulltrúi Lýðheilsustöðvar kom og hitti matráða og fleiri í haust. Fulltrúinn lýsti yfir ánægju sinni með matseðlana og eru matseðlar leik- og grunnskólans á Grenivík þeir bestu sem hann hefur séð í allt haust.
Grunnskólahluti:
5. Börn í tímabundnu fóstri.
Skv. 5. grein í frumvarpi til laga um grunnskóla er sveitarfélögum skylt að sjá til þess að börn sem búa í sveitarfélaginu njóti skólavistar þrátt fyrir að hafa ekki lögheimili í sveitarfélaginu ef þau búa hjá forsjáraðila sem hefur lögheimili í sveitarfélaginu. Sú staða hefur sumstaðar komið upp að sveitarstjórnir hafa neitað þeim börnum um skólavist sem hafa verið í tímabundnu fóstri í sveitarfélaginu, þrátt fyrir að ”heimasveitarfélög” barnanna hafi viljað greiða skólavistina. Af þessu tilefni vildi skólastjóri grunnskólans að nefndin ræddi þessi mál, en afstaða hans er sú að svona vinnubrögð séu ófagleg og börnin eigi að sækja sína menntun í grunnskóla þess sveitarfélags sem það býr í hverju sinni. Þessi staða hefur ekki komið upp í Grýtubakkahreppi og er það vilji fræðslu- og æskulýðsnefndar að börn í tímabundnu fóstri njóti skólavistar eins og önnur börn í hreppnum.
6. Pisa-könnunin.
Niðurstöður úr PISA könnuninni lágu fyrir í byrjun desember og rætt var um þær. PISA könnunin er alþjóðlegur samanburður á menntakerfum og könnunin leiðir í ljós að staða Íslands hefur versnað frá árinu 2000 og eru Íslendingar í næst neðsta sætinu af norðurlöndunum. Skólastjóri telur að kannanir á borð við PISA séu ekki afgerandi mælikvarðar á gæði skólastarfs, því hefur hann ekki miklar áhyggjur af útkomu Íslands.
Fleira var ekki tekið fyrir, samþykkt að fundarritari gangi frá fundargerð og hún verði send til samþykkis í tölvupósti. Fundi slitið kl. 22:00.
Margrét Ösp Stefánsdóttir ritaði fundargerð.
Fundargerðin samþykkt með tölvupósti.