Fræðslu- og æskulýðsnefnd

13.04.2011 00:00

Fundur Fræðslu- og æskulýðsnefndar 13. apríl 2011.

Mættir eru nefndarmennirnir Fjóla Stefánsdóttir, Gísli Gunnar Oddgeirsson, Margrét Ösp Stefánsdóttir og Sigurbjörn Þór Jakobsson. Fjarverandi var Sigurlaug Sigurðardóttir. Þorsteinn Þormóðsson situr fundinn sem varamaður. Einnig sitja fundinn Ásta F. Flosadóttir skólastjóri, Hólmfríður Hermannsdóttir leikskólastjóri, Hermann Gunnar Jónsson fulltrúi foreldra grunnskólabarna, Anna Bára Bergvinsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna og Birna Kristín Friðriksdóttir fulltrúi starfsfólks leikskóla. Einnig sat Guðný Sverrisdóttir sveitastjóri fundinn.
Fundurinn er haldinn í Leikskólanum Krummafæti kl. 17:00 og eru gjörðir fundarins eftirfarandi:

1. Leikskólahluti.
Starfið. Hólmfríður Hermannsdóttir leikskólastjóri fór yfir starf leikskólans og sagði frá helstu málum. Það kemur eitt eins árs barn í byrjun maí  og eru börnin þá orðin 24 talsins. Hinsvegar hætta 6 börn í vor/sumar sem fara í grunnskólann í haust og  a.m.k. þrjú eins árs börn byrja í leikskólanum um miðjan ágúst.
Starfsfólk. Leikskólastjóri hældi starfsfólki sínu og er mjög ánægð með þeirra störf. Stöðugildi haldast í hendur við barngildin og er það í fyrsta skipti sem Leikskólinn er í svo góðum málum. Sumarið lítur ágætlega út. Búið er að ganga frá sumarafleysingu. Það er eitthvað um aukafrí og svo eiga margir starfsmenn nokkuð langt sumarfrí og því er gott að fá ákveðna sumarafleysingu.
Viðhald.  Þórey Agnarsdóttir eftirlitsmaður hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra er nýbúin að koma í eftirlitsferð og enn og aftur setti hún út á undirlagið á leiksvæði úti, en annað var í nokkuð góðu lagi. Guðni fer með leikskólastjóranum yfir það sem vantar og verður ekki lengi að bæta úr þeim málum. Í sumar  þyrfti að mála gluggana að utan og svo væri æskilegt að mála húsið. Kannski má það nú samt bíða einhvern tíma.

2. Skólastefna Grýtubakkahrepps.
 Skólastefna Grýtubakkahrepps rædd. Ákveðið var að skólastjórnendur hittist og reyni að  samræma stefnuna í einu plaggi. Stefnan er sett á að klára skólastefnuna á þessu skólaári.
 
3.  Grunnskólahluti.
 Starfsmannamál.  Skólastjóri lýsir mikilli ánægju með starfsfólk og einnig er starfsandi mjög  góður. Skólastjóri segir starfsmannamál líta nokkuð vel út fyrir næsta skólaár, búið er að ganga  frá ráðningu á íþróttakennara og var Stefán Guðnason ráðinn aftur, einnig er búið að ganga frá  ráðningu Þorgeirs Finnssonar. Guðrún Árnadóttir og Edda Björnsdóttir taka aftur til starfa eftir  fæðingarorlof.
 Næsti vetur.  Fjallað var um skólastarf næsta vetrar, áætlun yfir stundafjölda í Grenivíkurskóla næsta skólaár lagt fram og kynnt.
 Danskennsla og sund.  Danskennsla er hafin í Grenivíkurskóla og sér Jóhanna Elín um  kennsluna. Sundkennsla hefst ekki á tilsettum tíma vegna viðgerða á sundlaug og er rætt um að  sundkennslan fari fram í þemavikunni í maí.

Fundur slitinn kl. 18:20.
Fundargerð ritaði Gísli Gunnar Oddgeirsson.