Íbúaþing

25.04.2012 00:00

Íbúafundur
haldinn í samkomusal Grenivíkurskóla
þann 25. apríl 2012
kl. 20:00 – 22:20

Fundarstjóri: Jóhann Ingólfsson
Ritari:  Ásta F. Flosadóttir
Mættir:  44

Jóhann Ingólfsson setti fundinn og bauð gesti velkomna.

Dagskrá:

1.  Reykjaveita
Fulltrúar Norðurorku mættu á fundinn; Jóhannes Baldur þjónustustjóri og Arnaldur Birgir tæknifræðingur.
Þeir félagar fóru yfir starfsemi Norðurorku.  Álestrar eru framkvæmdir einu sinni á ári.  Þeir hvetja viðskiptavini eindregið til að fylgjast vel með notkuninni.
Rúmmetri af heitu vatni kostar nú 98 kr.  Nú er búið að breyta gjaldskránni í aflmælingu úr rúmmetramælingu.  Það er gert til að auka jöfnuð milli notenda.  Heildartekjur af veitunni lækkuðu um 10% eftir breytingu.  Gjaldskrárbreyting varð svo 1. feb. eftir neysluvísitölu.  Tekjur Norðurorku af Grýtubakkahreppsveitunni voru lægri 2011 en 2010, eins og Norðurorka bjóst við.  
Umræður:
Guðný sagði að orkureikningar hreppsins hefðu lækkað heldur milli áranna 2010 og 2011, sem passar ágætlega við þetta. 
Jakob sagðist halda að fáir nái 25 gráðum út úr húsi.  Arnaldur sagði að það snúist um hönnun húsa.  Til umræðu er að hækka þennan retúr upp í 30 gráður.  Það myndi kannski þýða lækkun orkureiknings til skamms tíma en svo myndi kílówattsstundin hækka á móti.
Jón Helgi spurði hvort binding við vísitölu neysluverðs verði alltaf föst.  Því var svarað til að slíkt væri alltaf í endurskoðun.
Jóhannes fór yfir útlit orkureikningsins og útskýrði hvað einstakar tölur þar þýddu.  Hann kynnti einnig raforkusölufyrirtækið Fallorku sem er dótturfélag Norðurorku.  Hann hvatti menn til að kaupa rafmagnið af Fallorku og versla þannig í heimabyggð.
Jóhann spurði hvort þeir viti hversu stór hluti heimila í hreppnum eru komin með hitaveituna.  Jóhannes sagðist halda að langflest heimilin séu komin með hitaveituna, ætlar að taka þessar tölur saman og senda Guðnýju.
Valgerður spurði um sóun á heitu vatni.  Hrönn spurði hvort það væri slæmt að skrúfa fyrir einstaka ofna.  Arnaldur mælir með að menn fylgist vel með ofnunum, menn hafi oft fengið háa bakreikninga vegna ofna sem rennur í gegnum.
Sigurbjörn spurði um blæðinguna í fjörunni, hvort það sé ekki nokkur leið að nýta útrennslið fyrir íbúana.  Jóhannes las upp bréf frá 7. og 8. bekk Grenivíkurskóla þar sem þau gerðu grein fyrir vísindaferð sinni í fjöruna þar sem þau mældu hitastig útrennslisins.  Vatnið úr rörinu var 56 gráður sem rann í fjöruna.  Þetta bréf fara Norðurorkumenn með sér og munu fjalla um það.  Blæðingin þjónar byggðinni með því að halda uppi hitanum á veitunni, en vel kemur til greina að nýta þetta vatn á einhvern hátt, í samvinnu við heimamenn. 

2.  Ársreikningur Grýtubakkahrepps
Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri fór yfir ársreikninginn og útskýrði uppbyggingu hans.  Niðurstöður ársreiknings eru á heimasíðu Grýtubakkahrepps  www.grenivik.is


3. Framkvæmdaáætlun 2012-2015
Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri fór yfir framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára.

Verkefnalisti ársins 2012:
Keypt dráttarvél                    9 millj
Hlaupabretti                         1 millj
Viðbygging við Krummafót     6 millj
Borð og stólar, skóli           0,5 millj
Hljóðkerfi                          0,5 millj
Samtals                           17 millj

Í þús. kr.                2013       2014      2015
Áhaldahús                2.000
Gil                           1.500
Undirlag leiksv.         2.000       2.000
Slökkvilið                 1.000       1.000      1.000
Grenilundur lóð        4.000
Gamli skóli                            14.000
Busllaug                                               8.000
Göngustígur                                          4.000
Leiguíbúðir             5.000                      5.000
Samtals              15.500     17.000   18.000

Umræður:
Sigurbjörn sagðist endilega vilja að tjaldstæðið á Kaðalstöðum yrði lagað.  Guðný sagðist myndu skoða það fyrir sumarið.

4. Frumvarp að lögum um stjórn fiskveiða
Jón Helgi Pétursson fór yfir útekt KPMG á frumvörpunum og áhrifum þeirra á Grýtubakkahrepp.  Skýrsla KPMG er á heimasíðu Grýtubakkahrepps www.grenivik.is
Áhrif vegna tilfærslu á kvótaþings eru þau helst að skerðing skipa í hreppnum gæti orðið 167 þorskígildistonn.  Það gæti kostað fyrirtækin 50-96 milljónir að leigja kvóta til þess að halda sama kvóta.
Veiðigjöldin eru tvennskonar; grunnveiðigjald og sérstakt veiðigjald.
Grunnveiðigjaldið er áætlað 70 m.kr.  Sérstakt veiðigjald gæti numið 520 m.kr.  Veiðigjald vegna makríls væri 95 m.kr.  Heildarkostnaður fyrirtækja í hreppnum er áætluð 735-781 m.kr.  Það er hátt í áttföldun á núverandi veiðigjaldi.
Aukning í gjaldtöku er því 1,7 – 2 m.kr. á hvern íbúa.
Á móti kæmi mögulegur hlutur Grýtubakkahrepps í leigutekjum af kvótaþingi upp á 1 – 7 m.kr.  Það nær ekki 1% af aukinni gjaldtöku af sjávarútvegsfyrirtækjum í sveitarfélaginu.
Ljóst er að Grýtubakkahreppur fer einna verst sveitarfélaga út úr þessu frumvarpi. 
Jóhann fór lauslega yfir áhrif frumvarpanna á Sænes ehf. 
Umræður voru fjörugar um þetta málefni. 
Jón Helgi las ályktun frá sveitarstjórn sem send var til sjávarútvegsráðuneytisins. 

5. Sorpmál
Guðný sýndi yfirlit yfir það magn sorps sem urðað var frá Grýtubakkahreppi sl. 4 ár.  Magn þess sorps sem urðað er hefur snarminnkað með aukinni flokkun.  Skv. upplýsingum frá Gámaþjónustunni er plastið flokkað frá okkur í þrjá flokka; hart plast og lint plast, sem hvort tveggja fer í endurvinnslu, og svo skítugt plast sem er brennt.  Þetta er mest plast utan af matvælum.  Það er erfitt er að þrífa svo vel sé.  Það er mun betra að senda það plast í brennslu en að urða það.

Nú verður nýr gámavöllur opnaður fljótlega.  Sænes ehf. byggir völlinn og leigir hreppnum.  Fjörugar umræður voru um opnunartíma og annað tengt rusli og flokkun.
Guðný lagði áherslu á að vel væri gengið um gámana, það er dýrt að keyra hálftóma gáma til Akureyrar. 
Fiddi nefndi að endurvinnslubíllinn hafi oft verið í vandræðum með að snúa við á Finnastöðum, þarf að finna lausn á því.
Sigurbjörn tók fram að dekkjagámurinn verður áfram staðsettur í Réttarholti, dekk með felgum eiga þó að fara í járnagám.

Jóhann ræddi um stöðu Moltu, en hún er alls ekki góð.  Sænes ehf. er að leggja viðbótarhlutafé í Moltu fyrir hönd hreppsins.

Önnur mál
Guðný kallaði eftir umræðu um almenningssamgöngur milli Akureyrar og Grenivíkur.  Fundarmenn almennt jákvæðir.  Juliane hefur verið að skoða þetta með SBA og þar er áhugi fyrir því að fara af stað með áætlun.  Sigurbjörn sér þarna leið fyrir allskonar smáflutninga t.d. varahluti sem ekki næst að koma með Hafsteini.  Guðnýju ógnar bara kostnaðurinn sem sveitarfélagið þyrfti að leggja út.  Jón Helgi tók undir það.  Sveitarstjórn mun þó skoða þetta áfram með jákvæðu hugarfari. 

Sigurbjörn Jakobsson steig í pontu og sagði frá því að nú á fyrsta ársfjórðungi er hagnaður af starfsemi Pharmarctica og framtíðin virðist vera bjartari.  Fyrirtækið er með mörg járn í eldinum.

Að lokum þakkaði Jóhann öllum fyrir komuna og sleit íbúaþinginu.