Sveitarstjórn

13.01.2003 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 42

 

Mánudaginn 13. janúar 2003 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar í fundarstofu hreppsins.  Allir hreppsnefndarmenn mættir nema Jón Helgi Pétursson.  Í hans stað sat Fjóla Stefánsdóttir fundinn. Einnig sat sveitarstjóri fundinn. Fundurinn hófst kl. 17,00.

 

Gjörðir fundarins voru þessar:

 

  1. Bréf frá Kristjáni Stefánssyni dags. 22. nóv. 2002. 
    Í bréfinu er Kristján að fara fram á niðurfellingu á fasteignagjöldum á útihúsum á Grýtubakka II,  þar sem  þau eru  ekki í notkun. Erindinu hafnað þar sem sveitarstjórn hefur ekki veitt slíkar niðurfellingar. 

     

  2. Bréf frá Eyþingi dags. 11. des. 2002 og afrit af bréfi frá menntamálaráðuneytinu dags. 9. des. 2002.
    Er verið að fara fram á við Grýtubakkahrepp að hann tilnefni einn fulltrúa og annan til vara til að mæta á fund um samning um menningarmál.  Guðný Sverrisdóttir tilnefnd aðalmaður og Jenný Jóakimsdóttir sem varamaður.
  3. Bréf frá Benedikt Björnssyni dags. 11. des. 2002.
    Benedikt er að bjóðast til að vinna aðalskipulag fyrir Grýtubakkahrepp.  Bréfið lagt fram en gerð aðalskipulags er ekki komin inn á áætlun hjá Grýtubakkahreppi.

     

  4. Fundargerð skólanefndar Grenivíkurskóla frá 9. des. 2002. 
    Fyrsta lið vísað til fjárhagsáætlunar.  Hvað lið tvö varðar er sveitarstjóra falið að kynna sér þörf fyrir aðstoð við heimanám og hvernig er staðið að slíkum málum annarstaðar.  Fundargerðin samþykkt að öðru leyti.

     

  5. Bréf frá Ungmennafélagi Íslands dags. 10. des. 2002. 
    Er verið að minna á að aldraðir njóti sömu aðstöðu í íþróttahúsum og aðrir aldursflokkar. Bréfið lagt fram.

     

  6. Bréf frá T.E. dags. 11. des. 2002. 
    Í bréfinu er verið að fjalla um hljóðfæraþörf skólans.  Hreppsnefnd tekur jákvætt í bréfið og leggur áherslu á að greiðslum verði skipt minnst á þrjú ár.

     

  7. Bréf frá Sparisjóði Höfðhverfinga dags. 18. des. 2002. 
    Er verið að tilkynna um að stjórn Sparisjóðsins hafi samþykkt beiðni Grýtubakkahrepps um kaup á stofnfé.  Bréfið lagt fram.

     

  8. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 16. des. 2002.
    Í bréfinu er verið að tilkynna um námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn.  Bréfið lagt fram.

     

  9. Fundargerðir byggingarnefndar Eyjafjarðar dags. 17. des. 2002. Fundargerðirnar lagðar fram

     

  10. Bréf frá stéttarfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu dags. 19. des. 2002.
    Er verið að minna á að sveitarfélög standi ekki fyrir hækkunum svo tryggja megi stöðugleika í þjóðfélaginu.  Bréfið lagt fram.

     

  11. Bréf frá Eyjafjarðarsveit dags. 23. des. 2002. 
    Bréfið er vegna breytingar á aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar. Hreppsnefnd gerir ekki athugasemd við breytinguna.

     

  12. Fundargerð samstarfsnefndar Iðjuþjálfafélags Íslands og Launanefndar sveitarfélaga frá 19. des. 2002.
    Fulltrúar samstarfsnefndarinnar eru sammála um að iðjuþjálfi sem er í starfi hjá Grýtubakkahreppi skuli vera í launafl. 17.