- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Hreppsnefndarfundur nr. 97
Mánudaginn 6. júní 2005 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Allir hreppsnefndarmenn mættir nema Jón Helgi Pétursson. Einnig sat sveitarstjóri fundinn. Fundurinn hófst kl. 17,00.
Gjörðir fundarins voru þessar:
1. Kosning oddvita og varaoddvita til eins árs.
Þórður Stefánsson var kjörinn oddviti og Jóhann Ingólfsson varaoddviti.
2. Alfa Aradóttir kom á fundinn.
Alfa var forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Gryfjunnar í Grýtubakkahreppi. Lögð fram skýrsla vegna félagsstarfs veturinn 2004-2005. Alfa fór yfir skýrsluna og útskýrði hana. Hér með er Ölfu þakkað gott starf en hún lét af störfum um síðustu mánaðamót.
3. Bréf frá Íþróttafélaginu Magna dags. 29. maí 2005.
Magni er að fara fram á að ruslagámar á Grenivíkurhólum verði færðir yfir sumarmánuðina. Ákveðið að færa gáma á Grenivíkurhólum suður í malarkrús á Grenivíkurhólum í sumar. Vegna slæmrar umgengni er ákveðið að færa gáma á Grundarskriðu einnig út í malargrifjuna á Grenivíkurhólum nú í sumar.
4. Bréf frá Örlygi Hnefli Jónssyni dags. 23. maí 2005.
Bréfið er skrifað fyrir hönd Sveins Jóhannessonar á Hóli, en hann er að gera athugasemdir við landbóta- og landnýtingaráætlun 2005-2010 vegna afréttar í Grýtubakkahreppi. Einnig er verið að mótmæla að Sveinn þurfi að hlýta ákvörðun um hvenær megi sleppa fé á Látraströnd þar sem hann á jarðir þar. Ákveðið að vísa bréfinu til landbóta- og landnýtingarnefndar. Einnig ákveðið að fá umsögn Ólafs Dýrmundssonar og lögfræðings sveitarfélagsins um erindið.
5. Bréf frá Jónasi Baldurssyni og Stefáni Kristjánssyni dags. 24. maí 2005.
Eru þeir að gera athugasemdir við landbóta- og landnýtingaráætlun 2005-2010 vegna afrétta í Grýtubakkahreppi. Bréfinu er vísað til landbóta- og landnýtingarnefndar til umsagnar Grýtubakkahrepps.
6. Tölvupóstur frá Pólarhestum dags. 26. maí 2005.
Stefán Kristjánsson er fyrir hönd Pólarhesta að gera grein fyrir því að viðkomandi sé ekki aðili að gæðastýringu í sauðfjárrækt og telur sig ekki þurfa að hlíta reglum þar að lútandi. Ákveðið að fá álit Ólafs Dýrmundssonar á bréfinu. Einnig ákveðið að vísa bréfinu til landbóta- og landnýtingarnefndar til umsagnar.
7. Leiðtogaskólinn.
Er verið að kynna skóla "námskeið" fyrir vinnuskóla. Erindið lagt fram.
8. Drög að samþykkt fyrir fráveitur í Grýtubakkahreppi.
Ákveðið að senda drögin til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra til umsagnar.
9. 30 km hámarkshraði á Grenivík.
Samþykkt að 30 km hámarkshraði verði á götum í þéttbýli í sveitarfélaginu.
10. Fundargerð stjórnar Eyþings frá 13. maí sl.
Lögð fram.
11. Bréf frá Félagi áhugafólks og aðstandenda Alzheimers sjúklinga og annarra minnissjúkra (FAAS) dags. 01.06.2005.
Er félagið að sækja um styrk. Erindinu hafnað.
12. Bréf frá Gróðurverndarnefnd Eyjafjarðar frá 2. júní 2005.
Í bréfinu eru tillögur um sleppingu sauðfjár í afréttum í Grýtubakkahreppi, en nefndin telur að Látraströnd sé tilbúin til að taka á móti takmörkuðu magni sauðfjár í hæfilegum skömmtum. Í Fjörðum er ekki mælst til að sleppa fé fyrr en um miðjan júní og takmarka fjöldan í byrjun. Má miða við að um þriðjungur fjárfjölda hvers bæjar sem nýtir afréttinn og dreifa sleppingunni yfir tíu til fimmtán daga. Eftir símafund nefndarinnar í dag komu þau skilaboð að nefndin mælti með að sleppa mætti í Fjörður um helgina 11. til 12. júní nk. Ákveðið að fara eftir tillögum gróðurverndarnefndar og leyfa sleppingu í Fjörðum 11. júní nk. en aðrar tillögur óbreyttar og samþykktar.
13. Önnur mál.
Engin.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 19,20