Sveitarstjórn

03.07.2006 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 119.

Miðvikudaginn 3. júlí 2006 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir.  Fundurinn hófst kl. 17,00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Kosning í nefndir Grýtubakkahrepps. 
Á síðasta fundi sveitarstjórnar var frestað að skipa fulltrúa í Byggingarnefnd Eyjafjarðar og í verkefnisstjórn Kaldbakur kallar.  Samþykkt að tilnefna Hermann Gunnar Jónsson sem aðalmann í Byggingarnefnd Eyjafjarðar og Pálma Laxdal til vara.  Í stjórn Kaldbakur kallar samþykkir sveitarstjórn að tilnefna Guðnýju Sverrisdóttur og Sigurbjörn Höskuldsson.

2. Drög að erindisbréfi félags- og jafnréttisnefndar. 
Lögð fram drög að erindisbréfi félags- og jafnréttisnefndar.  Drögin samþykkt.

3. Drög að erindisbréfi fræðslu- og æskulýðsnefndar. 
Lögð fram drög að erindisbréfi fræðslu- og æskulýðsnefndar.  Drögin samþykkt með smávægilegum breytingum.

4. Drög að erindisbréfi landbúnaðarnefndar. 
Lögð fram drög að erindisbréfi landbúnaðarnefndar.  Drögin samþykkt með smávægilegum breytingum.

5. Starfsmannahald í grunnskólanum. 
Rætt um starfsmannahald í Grenivíkurskóla.  Samþykkt að fela sveitarstjóra og oddvita að ræða við skólastjóra um þessi mál.

6. Málefni Golfklúbbsins Hvamms. 
Sveitarstjórn hefur borist tölvupóstur frá golfklúbbnum Hvammi þar sem farið er fram á að kannaðir séu möguleikar á veðsetningu á þeirri landsuppbyggingu sem gólfklúbburinn hefur staðið í á landi hreppsins.  Sveitarstjóra falið að kanna hvort mögulegt sé að veðsetja þessa uppbyggingu. 
Þá hefur sveitarstjórn borist bréf með hugleiðingum stjórnar Hvamms um framtíðaruppbyggingu golfklúbbsins.  Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju með þá uppbyggingu sem nú þegar hefur farið fram í Hvammi.  Ljóst er að umtalsverða fjármuni þarf til áframhaldandi uppbyggingar.  Sveitarstjórn telur að nánari umræðu þurfi um þetta mál og vísar erindinu til gerðar næstu fjárhagsáætlunar. Jón Helgi Pétursson vék af fundi í þessum lið.

7. Ráðning leikskólastjóra. 
Einn umsækjandi var um stöðu leikskólastjóra leikskólans Krummafótar til eins árs, meðan Regína Ómarsdóttir er í leyfi.  Umsækjandinn er Hólmfríður Hermannsdóttir og samþykkir sveitarstjórn ráðningu hennar í stöðuna.

8. Eitrun á njóla. 
Sveitarstjórn samþykkir að greiða niður njólaeitur um sem nemur 40% af innkaupsverði eitursins. Hvetur sveitarstjórn jarðeigendur til þess að nýta þetta tækifæri og útrýma njólanum í eitt skipti fyrir öll.

9. Bréf frá Ármanni Einarssyni dags. 21/6'06. 
Í bréfinu er Ármann að svara erindi sem sveitarstjórn vísaði til hans þar sem Kvenfélagið Hlín óskaði eftir að fá keypta þjónustu við flutning á borðum og stólum við veisluhöld í íþróttasal og samkomusal Grenivíkurskóla.  Í bréfinu kemur fram að það sé sjálfsagt mál að hefja gjaldtöku fyrir slíka þjónustu.  Sveitarstjórn samþykkir að boðið skuli upp á slíka þjónustu fyrir kr. 5.000- pr. skipti til líknarsamtaka.

10.  Tölvupóstur frá Opus dags. 19/06'06. 
Í póstinum er skýrt frá mati á burðargetu gólfs í slökkvistöð.  Samþykkt að vísa erindinu til Sæness ehf., sem er eigandi húsnæðisins.

11.  Bréf frá forstöðukonum Grenilundar dags. 22/06'06. 
Í bréfinu er bent á að huga þurfi að viðhaldi á Grenilundi.  Sveitarstjórn beinir því til forstöðumanns og verkstjóra að þau komi á ákveðnu verklagi til að fylgjast með og annast viðhald.

12.  Bréf frá Bændasamtökum Íslands, ódagsett. 
Lagt fram.

13.  Fundargerð búfjáreftirlistnefndar frá 21/6'06, auk fylgiskjala. 
Lagt fram.

14.  Önnur mál.
Engin.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 20.30.