- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Mánudaginn 4. júní 2007 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Allir hreppsnefndarmenn mættir ásamt sveitarstjóra. Fundurinn hófst kl. 17:00.
Gjörðir fundarins voru þessar:
1) Fundargerð um framtíð brunavarna í Eyjafirði dags. 18. maí 2007.
Lögð fram. Samþykkt að óska eftir áliti slökkviliðsmanna á mögulegu samstarfi eða sameiningu við önnur slökkvilið.
2) Tónlistarskóli Eyjafjarðar.
(a) Fundargerð 85. fundar. Lögð fram. Sveitarstjórn samþykkir hækkun framlags skv. beiðni skólanefndar Tónlistarskólans, að því gefnu að samstaða náist um hækkun meðal annarra sveitarfélaga sem að skólanum standa.
(b) Tillaga að nýrri skiptingu kostnaðar við Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Tillagan felur í sér að kostnaður við laun skólastjóra skiptist á sveitarfélög skv. íbúafjölda en kostnaður vegna kennaralauna skv. fjölda kennslustunda sem kenndar eru hjá hverju sveitarfélagi. Sveitarstjórn lýsir sig fylgjandi tillögunni.
3) Fundargerð landbúnaðarnefndar frá 30. maí 2007.
Fundargerðin samþykkt með þeim viðbótum að leyft er að sleppa fé á ógirt heimalönd á sama tíma og Látraströnd er opnuð fyrir sauðfé, þ.e. 4. júní. Slepping í Fjörður verður heimil 8. júní. Stórgripum má fyrst sleppa á afrétt 1. júlí.
4) Bréf frá samgönguráðuneytinu dags. 30. maí 2007.
Bréfið er svar við bréfi Grýtubakkahrepps dags. 11. maí 2007 þar sem Grýtubakkahreppur óskaði eftir styrk úr framkvæmdasjóði til framkvæmda um lagningu ljósleiðara til Grenivíkur. Í bréfinu kemur fram að styrkbeiðni sé hafnað. Samþykkt að óska eftir fundi með samgönguráðherra, svo bera megi mál þessi undir hann en lagning ljósleiðara til Grenivíkur er ljóslega ekki markaðslega hagkvæm en engu að síður afar mikilvægur þáttur í búsetuskilyrðum á svæðinu.
5) Lagning ljósleiðara.
Samningsdrög um fjarskiptaþjónustu við Tengi hf. lögð fram. Rætt um samningsdrögin, afgreiðslu frestað.
6) Stofnsamningur Flokkunar ehf.
Lagður fram.
7) Kynning á rekstrar- og viðskiptanámi við Háskólann á Akureyri.
Lagt fram.
8) Aðalfundur Vélsmiðjunnar Víkur ehf. 7. júní 2007.
Samþykkt að Jóhann Ingólfsson fari með umboð Grýtubakkahrepps á fundinum.
9) Ráðning húsvarðar.
Umsóknarfrestur um starf húsvarðar í íþróttamiðstöð og skóla er liðinn. Fimm umsóknir bárust um starfið, en einn umsækjenda óskaði nafnleyndar. Aðrir umsækjendur voru Gunnar Gunnarsson, Jónas Páll Einarsson, Sigurbjörn Þ. Jakobsson og Sigurður B. Þorsteinsson. Verið er að ræða við umsækjendur.
10) Reglur um byggðakvóta.
Sveitarstjórn samþykkir tillögur að reglum við úthlutun byggðakvóta.
11) Útseld vinna frá áhaldahúsi.
Samþykkt að breyta gjaldskrá fyrir slátturtraktor með manni þannig að útsala á klukkutíma verður kr. 4.000- án vsk. (kr. 4.980- með vsk.). Jafnframt samþykkt að slátturtraktor með manni verði aldrei seldur út til skemmri tíma en 1/2 klst. í hvert skipti. Rætt um tilhögun vinnuskóla. Samþykkt að unglingar fæddir á árinu 1991 fái vinnu í vinnuskóla 6-8 klst. á dag.
Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:45.