- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Hreppsnefndarfundur nr. 145
Mánudaginn 15. október 2007 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Allir hreppsnefndarmenn mættir nema Jóhann Ingólfsson en í hans stað sat Margrét Ösp Stefánsdóttir fundinn. Einnig sat sveitarstjóri fundinn. Fundurinn hófst kl. 17:00.
Gjörðir fundarins voru þessar:
1. Farið upp á Kaldbaksveg ef veður og færð leyfa.
Ferðinni frestað vegna veðurs.
2. Fundargerð stjórnar Eyþings frá 10. september 2007.
Lögð fram.
3. Fundargerðir Héraðsráðs Eyjafjarðar frá 10. september og 26. september sl.
Lagðar fram.
4. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 5. október 2007.
Í lið 1 í fundargerðinni er Bríet Þorsteinsdóttir að sækja um leyfi til að byggja íbúðarhús á lóð nr. 12 við Sæland á Grenivík. Í lið 2 er Sveinn Sigurbjörnsson að sækja um leyfi fyrir garðhús við íbúðarhús sitt í Ártúni. Fundargerðin lögð fram og framangreindir liðir samþykktir. Jón Helgi og Benedikt véku af fundi meðan þessi liður var ræddur.
5. Fundargerð fræðslu- og æskulýðsnefndar frá 3. október 2007.
Fundargerðin samþykkt.
6. Bréf frá Kvenfélaginu Hlín dags. 1. október 2007.
Er kvenfélagið að fara fram á aðstöðu á neðri hæð skólans fyrir allan borðbúnað og annað sem fylgir starfsemi kvenfélagsins. Sveitarstjóra falið að leita lausnar á þessu máli í samráði við húsvörð skóla og kvenfélagið.
7. Minnisblað vegna Fjarðarár frá Sigfúsi Aðalsteinssyni, ódagsett.
Blaðið fjallar um fiskveiði í Fjörðum. Ekki er til staðar veiðifélag landeigenda sem veiðirétt hafa í Fjarðará. Samþykkt að fela sveitarstjóra að undirbúa stofnun slíks félags, sé vilji til þess meðal landeigenda. Slíkt félag tæki í framhaldinu ákvarðanir um hagnýtingu árinnar.
8. Bréf frá Stefáni Þengilssyni dags. 1. október 2007.
Stefán er að draga til baka umsókn sína um lóð í Sunnuhlíð 2 á Grenivík. Lagt fram.
9. Bréf frá Önnu Pétursdóttur dags. 24. júlí 2007, áður tekið fyrir 3. september og 17. september sl. Anna er að sækja um lóð nr. 2 við Sunnuhlíð á Grenivík. Með vísan í 8. tölulið hér að framan liggur fyrir að ekki eru aðrar umsóknir um umrædda lóð og samþykkir sveitarstjórn því erindið.
10. Bréf frá Sveini Jónssyni dags. 2. október 2007.
Er hann að sækja um lóð nr. 11 við Sunnuhlíð á Grenivík. Erindið samþykkt.
11. Bréf frá Fjarskiptasjóði dags. 2. október 2007.
Er verið að svara erindi Grýtubakkarhepps varðandi slæmt GSM samband í Laufási í Grýtubakkahreppi. Í bréfinu kemur fram að í seinni áfanga verkefnisins sem nú er í útboðsferli, var lögð áhersla á að styrkja GSM samband á öllum stofnvegum og helstu ferðamannastöðum en þeir voru valdir í samráði við Ferðamálastofu. Skv. samtali sveitarstjóra við starfsmann Ferðamálastofu var ekki gert ráð fyrir Laufási í þessum áfanga, þar sem talið var að fullur styrkur væri á GSM sambandi í Laufási. Sveitarstjóri leiðrétti þennan misskilning og mun Ferðamálastofa senda Fjarskiptasjóði erindi þar sem óskað er eftir því að úrbætur á GSM sambandi í Laufási falli undir fyrrnefndan áfanga.
12. Bréf frá Skipulagsstofnun dags. 8. október 2007.
Er verið að minna á gerð aðalskipulags í Grýtubakkahreppi. Stefna sveitarstjórnar er að hefjast handa við gerð aðalskipulags á næsta ári. Sveitarstjóra falið að svara erindinu.
13. Reiðvegamál. Bréf frá Sesselju Bjarnadóttur og Þórði Ólafssyni dags. 23. september 2007, bréf frá Jóni S. Ingólfssyni og Jórlaugu Daðadóttur dags. 11. október 2007, bréf frá Flosa Kristinssyni og Þórdísi G. Þórhallsdóttur dags. 11. október 2007 og bréf frá Guðrúnu Árnadóttur og Gunnþóri Ingimar Svavarssyni dags. 12. október 2007.
Er verið að svara í fyrrnefndum bréfum erindi um reiðveg austan við Höfðann frá hesthúsahverfi vestur á Skælu. Allir tóku vel í erindið. Sveitarstjórn heimilar lagningu umrædds reiðvegar skv. meðfylgjandi uppdrætti.
14. Bréf frá Aflinu, systursamtökum Stígamóta á Norðurlandi dags. 5. október 2007.
Er verið að biðja um styrk til rekstrar Aflsins. Samþykkt að veita styrk að upphæð kr. 10.000-.
15. Öldrunarmál.
Samþykkt að senda erindi til Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem óskað er eftir því að settur verði á stofn starfshópur varðandi málefni smærri öldrunarstofnanna, þar sem saman fer rekstur hjúkrunarrýma og dvalarrýma. Ljóst er að mikil þörf er fyrir aukinn fjölda hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum sem þessum og æskilegt að sveitarfélög sem eru í þessari stöðu sameini krafta sýna við að ná fram fjárveitingum frá ríkinu svo öldrunarstofnanirnar geti veitt nauðsynlega þjónustu á hverjum stað fyrir sig.
16. Tilboð í útleigu á hluta Hvammslands til rjúpnaveiða.
Tvö tilboð bárust: frá Fjörðungum ehf. kr. 75.000,- og Jóni Þorsteinssyni og Lofti Árnasyni kr. 41.500,-. Samþykkt að taka tilboði Fjörðunga ehf. Guðný vék af fundi meðan þessi liður var ræddur.
17. Bréf frá Landbúnaðarstofnun dags. 10. október 2007.
Er verið að ítreka árlega bólusetningu ásetningslamba og kiða til varnar garnaveiki. Samþykkt að beina því til landbúnaðarnefndar að hún fylgi eftir umræddri bólusetningu og komi þeim gögnum sem óskað er eftir í bréfinu til sveitarstjóra fyrir 1. desember.
18. Samningur um lagningu ljósleiðararöra á Grenivík.
Samningurinn er milli Grýtubakkahrepps og Icefox. Samningurinn samþykktur.
19. Önnur mál.
Engin.
Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:50.