Sveitarstjórn

16.02.2010 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 196

Þriðjudaginn 16. febrúar 2010 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Allir hreppsnefndarmenn mættir ásamt sveitarstjóra. Fundurinn hófst kl. 17:00.

 Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Drög að breytingum á neðri hæð Grenivíkurskóla.
    Lögð fram drög að breytingum á neðri hæð Grenivíkurskóla. 
    Sveitarstjórn samþykkir að unnið skuli að breytingum á neðri
    hæð skólans samkvæmt fyrirliggjandi drögum að gerðum
    smávægilegum breytingum.

2. Gjafaafsal til Ferðafélagsins Fjörðungs.
    Lögð fram drög að breytingum á gjafaafsali til Ferðafélagsins
    Fjörðungs. Drögin samþykkt með smávægilegum breytingum.

3. Samningur um ráðgjafaþjónustu við leikskólann Krummafót. 
    
Fyrri samningur rann út um síðustu áramót. 
    Sveitarstjóra falið að ganga frá nýjum samningi.

4. Bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga dags. 24. janúar 2010.
    Er verið að fara fram á heimild fyrir því að lánasjóðurinn birti
    upplýsingar um stöðu lána sveitarfélagsins hjá sjóðnum. 
    Sveitarstjórn samþykkir að veita umbeðna heimild.

5. Aðalfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi 11. febrúar 2010.
    Sveitarstjóri var fulltrúi Grýtubakkahrepps á fundinum en áður var búið 
    að fá munnlega heimild.

6. Bréf frá Hannesi Jóni Jónssyni, dags. 9. febrúar 2010.
    Er hann að leita eftir styrk vegna þjálfaraferðar til Englands en
    Hannes Jón er yfirþjálfari yngri flokka Magna og meistaraflokks Magna.
    Samþykkt að veita styrk að upphæð kr. 10.000-.

7. Tölvupóstur frá Björgvin Smára Jónssyni, dags. 12. febrúar 2010. 
     Er hann fyrir hönd Guðmundar Njálssonar og Guðrúnar Jóhannsdóttur
     að óska eftir leyfi sveitarstjórnar til að stækka sumarhús í landi Skarðs
     í Dalsmynni.  Sveitarstjórn samþykkir erindið fyrir sitt leyti með fyrirvara
     um samþykki byggingarfulltrúa og að byggingin rúmist innan lóðarmarka.

8. Bréf frá Gísla Gunnari Oddgeirssyni, ódagsett.
    Er hann að leita eftir að fá leigðan kvóta af fyrirtæki Grýtubakkahrepps,
    Sænesi. Stjórn Sæness hefur upplýst sveitarstjórn um að þegar hafi öllum
    kvóta á yfirstandandi fiskveiðiári verið ráðstafað og því er ekki unnt að verða
    við erindinu.

9. Bréf frá Þórði Ólafssyni dags. 11. febrúar 2010.
    Er hann að leita eftir að fá leigðan kvóta af fyrirtæki Grýtubakkahrepps,
    Sænesi. Stjórn Sæness hefur upplýst sveitarstjórn um að þegar hafi öllum
    kvóta á yfirstandandi fiskveiðiári verið ráðstafað og því er ekki unnt að verða
    við erindinu.

10.Úthlutunarreglur um byggðakvóta 2009/2010. 
    Jón Helgi lýsti sig vanhæfan í þessu tiltekna máli vegna fjölskyldutengsla
    við útgerðina Frosta ehf. Benedikt lýsti sig vanhæfan í þessu tiltekna máli
    þar sem hann er einn eigenda útgerðar Sindra. Sveitarstjórn samþykkir
    vanhæfi beggja og kallar til varamennina Guðna Sigþórsson og Margréti Ösp
    Stefánsdóttur.  Jenný Jóakimsdóttir er 1. varamaður en hún hefur einnig lýst
    sig vanhæfa þar sem hún er einn eigenda Jennu EA. Benedikt og Jón Helgi
    viku hér af fundi.
    Í bréfi frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu dags. 31. janúar 2010
    tilkynnir ráðuneytið að Grenivík fái úthlutað  150 þorskígildistonnum í
    byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2009/2010. Með bréfi dags. 5. febrúar
    2010 er forsvarsmönnum útgerða á Grenivík gefinn kostur á að koma
    með sameiginlega tillögu um úthlutun byggðakvóta 2009/2010. Ekki
    barst sameiginleg tillaga en bréf bárust frá eftirfarandi aðilum: 
    Þorsteini Harðarsyni dags. 11. febrúar 2010,
    frá Þórði Ólafssyni f.h. Elínar ÞH 82 og
    Gísla Gunnari Oddgeirssyni f.h. Gunnars útgerðar, dags. 11. febrúar 2010.
    Eftirfarandi tölvupóstar bárust:
    Frá Benedikt Sveinssyni f.h. Sindra ÞH 72, dags 15. febrúar 2010 og
    Inga Jóhanni Guðmundssyni f.h. Gjögurs hf. dags.12. febrúar 2010. 
    Sveitarstjórn hefur fjallað um bréf þessi og felur sveitarstjóra að
    svara bréfunum.

    Tillaga að sérstökum skilyrðum fyrir úthlutun byggðakvóta á Grenivík.
    Oddviti bar fram eftirfarandi tillögu á fundinum:
    Að úthlutun byggðakvóta sem kemur í hlut Grenivíkur verði skipt sem
    hér segir:
    Að 37% af byggðakvóta sem kemur í hlut Grenivíkur fiskveiðiárið 2009/2010
    verði skipt jafnt milli allra fiskiskipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni,
    sbr. 4 gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, við lok umsóknarfrests
    og eru skráð í byggðarlaginu 1. febrúar 2010.
    Að 63% af byggðakvóta sem kemur í hlut Grenivíkur fiskveiðiárið 2009/2010
    verði skipt eftir aflahlutdeild á þau fiskiskip sem eru skráð í byggðarlaginu
    1. febrúar 2010.
    Einnig er farið fram á að ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 82/2010  um
    15 þorskígildislesta hámarksúthlutun falli niður.
    Að öðru leyti verði farið eftir reglugerð nr. 82/2010 um um úthlutun 
    byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2009/2010.

    Rökstuðningur:
    Þar sem fiskvinnsla lá að miklu leyti niðri á Grenivík, meira en hálft
    viðmiðunarárið, gefa löndunartölur því ekki rétta mynd.  Því vill sveitarstjórn
    leggja til áðurnefndar breytingar á úthlutunarreglum. Nýr aðili er nú kominn
    að fiskvinnslu á Grenivík og því trúlegt að forsendur breytist varðandi löndun
    afla til fiskvinnslu á Grenivík. Sveitarstjórn leggur til að 63% byggðakvótans
    skiptist miðað við aflahlutdeild þar sem 95 þorskígildistonn af byggða-
    kvótanum eru tilkomin vegna minnkandi aflahlutdeildar.

   Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

11. Önnur mál.  
      Samþykkt að leita afbrigða til að taka fyrir erindi Sr. Bolla Péturs
      Bollasonar þar sem óskað er eftir 40 þ.kr. fjárstuðningi vegna léttmessu
      sem haldin verður í Laufási.  Erindinu hafnað.

Fundargerð lesin upp og samþykkt, fundi slitið kl. 18:40.
Jón Helgi ritaði fundargerð að 10. lið, þá tók Ásta við fundargerðarritun.