- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Hreppsnefndarfundur nr. 223
Mánudaginn 16. maí 2011 kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Allir sveitarstjórnarmenn mættir nema Ásta Fönn Flosadóttir en í hennar stað sat Sigurbjörn Jakobsson fundinn. Einnig sat sveitarstjóri fundinn sem hófst kl 17:00.
Gjörðir fundarins voru þessar:
1. Unnið að ímyndarvinnu.
Dagný Reykjalín, frá Blek - mörkun og miðlun, kom á fundinn. Rætt var
m.a. um innviði og þjónustu sveitarfélagsins. Eins var rætt um til hvaða
markhóps mögulegt kynningarstarf gæti höfðað. Samþykkt að
sveitarstjórn vinni frekari hugmyndavinnu og ræði síðan möguleg
kynningarmál.
2. Fundargerð atvinnu- og þróunarnefndar frá 4. maí 2011.
Samþykkt að fela sveitarstjóra að ræða við rekstraraðila Jónsabúðar og
Markaðsskrifstofu ferðamála varðandi mögulega upplýsingamiðstöð í
Jónsabúð. Einnig samþykkt að fela sveitarstjóra að ræða nánar við
Heiðar Sigurðsson um möguleg skipti á vefumsjónarkerfi fyrir
heimasíðu sveitarfélagsins. Fundargerðin samþykkt.
3. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 28. apríl 2011.
Í lið nr. 1 sækja Jóhann Kristján Einarsson Tungusíðu 30 og Árni Páll
Jóhannsson Munkaþverárstræti 13, Akureyri um leyfi fyrir sumarhúsi á
lóð nr. 3 í Sunnhlíð. Í lið nr. 2 leggur Stefán Jóhannsson, Aðalstræti 30,
Akureyri fyrir breyttar teikningar á sumarhúsi nr. 5 í Sunnuhlíð. Í lið nr. 3
sækir Fjarskipti ehf. Skútuvogi 2, Reykjavík um leyfi til að setja upp
fjarskiptabúnað og loftnetssúlu fyrir GSM þjónustu á skemmu á jörðinni
Höfða 2 í Grýtubakkahreppi. Fundargerðin lögð fram.
4. Fundargerðir stjórnar Eyþings frá 7. febrúar og 5. apríl 2011.
Fundargerðirnar lagðar fram.
5. Fundargerð samvinnunefndar um svæðisskipulag Eyjafjarðar
frá 4. apríl 2011.
Fundargerðin lögð fram.
6. Tölvupóstur frá Elínu Berglindi Skúladóttur dags. 2. maí sl.
Er hún að sækja um styrk að upphæð kr. 20.000,-og fría leigu í Gamla
skóla fyrir listasmiðja sem hún hyggst vera með fyrir börn í sumar.
Erindið samþykkt.
7. Aðalskipulag Grýtubakkahrepps.
Rætt um kafla 4.12.5 í drögum að aðalskipulagi Grýtubakkahrepps er
varðar skógrækt. Samþykkt að breyta ekki kaflanum.
8. Íbúaþing.
Samþykkt að halda íbúaþing 25. maí nk. kl. 20:00.
9. Bréf frá SÁÁ dags. í maí 2011.
Er verið að bjóða álfa til kaups til styrktar starfsemi fyrir ungt fólk.
Erindinu hafnað.
10. Bréf frá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á
Norðurlandi, dags. 4. maí 2011.
Bréfið fjallar um styrkbeiðni vegna reksturs Aflsins 2011.
Samþykkt að veita styrk að upphæð kr. 10.000-.
11. Skipun í þjónusturáð vegna samnings um málefni fatlaðra.
Samþykkt að skipa sveitarstjóra sem aðalmann í ráðið og Fjólu V.
Stefánsdóttur til vara.
12. Leiga á Hvammslandi ofan girðingar til rjúpnaveiða
árin 2011, 2012 og 2013.
Þriðjudaginn 10. maí sl. voru opnuð tilboð í rjúpnalandið. Eitt tilboð
barst, frá Fjörðungum ehf. kr. 265.500,- pr. ár. Samþykkt að taka
tilboði Fjörðunga og sveitarstjóra falið að ganga frá samningi þar um.
Guðný, Jóhann og Sigurbjörn viku af fundi meðan þessi liður var
ræddur.
Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:20.